Ásdís Hjálmsdóttir lauk í nótt keppni á sínum þriðju Ólympíuleikum þegar hún keppti í undankeppni spjótkasts á ólympíuleikvanginum í Ríó.
Ásdís náði sér ekki á strik en fyrsta kast hennar var stutt og ógilt og það næsta 54,92 metrar. Í þriðju tilrauninni gerði hún einnig ógilt og var þar með úr leik. Ásdís varð í 30. sæti af 31 keppanda.
Íslandsmet Ásdísar er 62,77 metrar en það setti hún á Ólympíuleikunum í London 2012, þar sem hún fór í úrslit.
Átta keppendur köstuðu yfir 63 metra lágmarkið sem þurfti til að tryggja sig inn í úrslitin. Fjórir bestu keppendurnir þar á eftir bættust svo í hópinn. Sú sem varð í 12. og síðasta sætinu inn í úrslitin kastaði 61,63 metra.
Hin tvítuga Maria Andrejczyk frá Póllandi átti lengsta kast undankeppninnar en hún kastaði 67,11 metra, sem er pólskt met.
Fylgst var með gangi mála í nótt hér á mbl.is:
--------------------------------------
01.35 - Ég þakka fyrir mig í kvöld og minni á hlaup Anítu Hinriksdóttur á morgun, miðvikudag. Viðtal við Ásdísi ætti að koma inn hér á mbl.is síðar í nótt.
01.33 - Vonbrigðin leyna sér ekki. Þriðja kastið var það lakasta og Ásdís gerir ógilt. Hún hefur lokið keppni.
01.31 - Nei, Ásdís mun bara kasta í miðju úrslitahlaupinu. Nú er komið að því!
01.30 - Áður en Ásdís kastar fer hér fram úrslitahlaupið í 1.500 metra hlaupi kvenna.
01.28 - Það styttist í síðasta kast Ásdísar. Enn er það þannig að kasta þarf 61,02 metra til að ná 12. og síðasta sætinu inn í úrslitin.
01.22 - Ásdís á eina tilraun eftir. Spjótið þarf að fara að minnsta kosti 61,02 metra til að hún komist í úrslitin.
01.20 - Annað kast Ásdísar fór 54,92 metra. Hún er að sjálfsögðu ekki ánægð með þetta, enda langt frá hennar besta.
01.17 - Ásdís er klár í að kasta en var stoppuð þar sem við þurfum að bíða eftir einum undanúrslitariðli í 200 metra hlaupi kvenna.
01.14 - Og nú er Spotakova komin yfir 63 metrana, eins og búast mátti við af heimsmethafanum. Hún er sú áttunda til að tryggja sig inn í úrslitin.
01.10 - Ásdís færði merkingu sína, sem segir til um hvar hún byrjar atrennuna, strax eftir kastið sitt. Vonandi skilar það betri köstum í hinum tveimur tilraununum.
01.09 - Nú er 1. umferð af þremur lokið í B-riðli. Kara Winger frá Bandaríkjunum er sem stendur í 12. sætinu, síðasta sæti inn í úrslit, með kasti upp á 61,02 metra. Christin Hussong er í 11. sæti með 62,17 metra kast.
01.07 - Maria Andrejczyk frá Póllandi var að setja pólskt met með risakasti, eða 67,11 metra kasti. Það er besta kast kvöldsins og hún er nú í hópi sjö keppenda sem hafa náð 63 metra lágmarkinu.
Kast 1 hjá Ásdísi: Kastið var misheppnað og spjótið fór líklega um 54 metra. Ásdís ákvað að stíga út fyrir kastbrautina og gera kastið þannig ógilt.
01.01 - Heimsmethafinn Barbora Spotakova var nálægt 63 metra lágmarkinu, kastaði 62,50 metra í fyrstu tilraun. Ansi góðar líkur á að hún fari í úrslit.
00.56 - Úff. Enn bætist í hóp þeirra sem eru komnar í úrslit. Madara Palameika frá Lettlandi kastaði 63,03 metra. Þær eru þá sex öruggar inn í úrslit.
00.55 - Og læknirinn Linda Stahl er ekkert að tvínóna við þetta. Hún kastaði yfir 63 metra í fyrsta kasti og er örugg inn í úrslit. Þá eru fimm öruggar inn í úrslit og átta búnar að kasta yfir 62 metra.
00.54 - Keppnin í B-riðli er komin af stað. Liina Laasma frá Eistlandi var að hefja hana, með 58 metra kasti.
00.50 - Jæja, við þurfum að bíða aðeins lengur. Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem ég hef þurft að bíða aðeins hérna í Ríó. Það er einn undanúrslitariðill í 400 metra grindahlaupi karla að fara að hlaupa og ekki er hægt að keppa í spjótkastinu á meðan.
00.45 - Ásdís keppti meidd á sínum fyrstu Ólympíuleikum, í Peking 2008, en setti svo Íslandsmet og fór í úrslit í London 2012. Við erum alveg að fara að komast að því hvað hún gerir í Ríó 2016. Fimm mínútur í fyrsta kast fyrsta keppanda í B-riðlinum. Ásdís er tólfta í röðinni.
00.40 - Terry McHugh, hinn írski þjálfari Ásdísar, er að sjálfsögðu með henni hér á leikvanginum og situr í fremstu röð, tilbúinn að gefa henni ráð eftir þörfum.
00.35 - Við bíðum bara spök eftir því að keppni í A-riðli hefjist. Á meðan má kannski rifja upp að Ásdís er útskrifaður lyfjafræðingur og stundar doktorsnám í ónæmisfræði við Háskólann í Zürich, þar sem hún hefur búið síðustu misseri. Hin þýska Linda Stahl, sem er í riðli með Ásdísi, er svo læknir. Þær skera sig nokkuð úr í keppendahópnum, með sína miklu menntun, og Ásdís segir hinar stelpurnar ekkert skilja í því hvernig þær hafi farið að því að samtvinna námið og keppni, enda hægara sagt en gert.
00.25 - Ásdís og hinir keppendurnir í B-riðli eru komnar inn á leikvanginn til að gera sig klárar. Þær byrja svo að kasta eftir 25 mínútur. Ásdís er númer 12 í kaströðinni af 15 keppendum.
Keppni í A-riðli lokið. Þá er ljóst að fjórir keppendur eru öruggir með sæti í úrslitum úr A-riðlinum. Þær Kolak, Khaladovich, Viljoen og Huihui köstuðu allar yfir 63 metra. Þrír keppendur til viðbótar köstuðu svo yfir 62 metra. Það má því alveg tippa á það að Ásdís þurfi að minnsta kosti 62 metra kast til að komast í úrslitin.
00.20 - Sara Kolak frá Króatíu hitti líka á frábært kast í lokatilraun sinni, eftir að hafa kastað 55 og hálfan metra í fyrstu tveimur. Hún kastaði 64,30 metra, setti króatískt met, og varð fjórða til að tryggja sig inn í úrslitin.
00.17 - Ansans. Hin kínverska Lyu Huihui var að kasta yfir 63 metra og er því þriðja til að tryggja sig inn í úrslitin úr A-riðlinum. Hún hafði ekki kastað yfir 60 metra í fyrstu tveimur tilraunum sínum.
00.15 - Alls hafa 28 af 30 keppinautum Ásdísar hérna náð lengra kasti en hún á sínum ferli. Ég get hins vegar lofað ykkur því að það eru ekki 28 keppendur að fara að kasta yfir Íslandsmeti hennar, eins og er að sýna sig hérna í A-riðlinum. Ef Ásdís hittir á mjög gott kast getur hún alveg komist í úrslit.
00.10 - Ásdís hefur verið fastagestur á stórmótum í mörg ár. Hún fór á sitt fyrsta árið 2006, EM í Gautaborg, þá tvítug. Hún missti af HM 2007 vegna olnbogameiðsla, en hefur síðan verið með á hverju einasta stórmóti. Reynsluleysi ætti sem sagt ekki að há þessum þrítuga Ármenningi.
00.04 - Nú er 2. umferð búin hjá A-riðlinum. Þær eiga þá eina kasttilraun eftir hver. Enn eru aðeins tvær öruggar áfram, með kasti yfir 63 metra, en fjórar til viðbótar hafa kastað yfir 60 metra (60,28 - 60,92 - 62,18 - 62,32).
23.57 - Ég ræddi við Ásdísi við upphaf Ólympíuleikanna og hún var bjartsýn fyrir keppnina. Hún kvaðst ánægð með það hvernig árið hefði gengið hingað til en sagðist eiga mikið meira inni. Vonandi nær hún að sýna það í þeim þremur kasttilraunum sem hún fær í kvöld.
23.50 - Ásdís hefur lengst kastað 61,37 metra á þessu ári, á móti í Prag í júní, en hún tryggði sig inn á Ólympíuleikana með 62,14 metra kasti á móti í Lettlandi í fyrravor. Í júlí komst hún í úrslit á EM í Amsterdam og varð í 8. sæti með 60,37 metra kasti. Það er næstlengsta kast hennar á stórmóti, á eftir Íslandsmetinu frá því í London.
23.48 - Nú hafa keppendurnir 16 í A-riðli kastað einu sinni hver. Tatsiana Khaladovich frá Hvíta-Rússlandi og Sunette Viljoen frá Suður-Afríku eru þær einu sem hafa náð 63 metra lágmarkinu, og eru öruggar áfram í úrslit. Aðeins tvær til viðbótar hafa kastað yfir 60 metra.
23.40 - Ásdís bætti síðast Íslandsmet sitt í undankeppninni á Ólympíuleikunum í London 2012, í fyrsta kasti, þegar hún kastaði 62,77 metra. Það var yfir lágmarksvegalengdinni sem þurfti að kasta til að komast í úrslit, svo Ásdís kastaði ekki meira í undankeppninni. Vonandi gengur eins vel í kvöld!
23.35 - Nú er hafin keppni í fyrri riðlinum. Ásdís er í þeim seinni. Keppendur eru sem sagt 31 talsins og er skipt í tvo riðla, en ekki skiptir neinu raunverulegu máli í hvorum riðlinum keppendur eru. Það komast bara samtals 12 í úrslit, nú eða fleiri ef að það verða fleiri sem kasta yfir 63 metra.
23.30 - Gott kvöld kæru lesendur og verið velkomnir í beina textalýsingu mbl.is héðan af Ólympíuleikvanginum í Ríó. Hér fylgjumst við með framgöngu Ásdísar Hjálmsdóttur sem hefur þrjár tilraunir til að tryggja sér sæti í úrslitum spjótkastskeppninnar, líkt og hún gerði á Ólympíuleikunum í London fyrir fjórum árum.