Guðmundur Guðmundsson hefur ekki fengið mikið hrós fyrir störf sín sem landsliðsþjálfari Dana. Á því varð þó mikil breyting í dag.
Dan Philipsen, ristjóri TV2 Sport í Danmörku, skrifar í dag pistil um Guðmund og lofar hann mjög.
„Það að enda í 5. og 6. sæti á tveimur stórmótum hefur ekki gert Guðmund Guðmundsson að hetju í Danmörku,“ eru orðin sem Philipsen hefur pistilinn á og segir hann enn fremur að sú gagnrýni sem Guðmundur hefur fengið á þeim mótum sé sanngjörn og réttmæt þótt hann taki það nú fram að hann sé ekki hlutlaus og að eflaust sé Guðmundur honum ósammála.
„En það er einmitt ástæða þessa pistils. Vegna þess að Guðmundur Guðmundsson á mikið hrós skilið vinnu sína síðustu daga í Ríó,“ segir Philipsen og heldur áfram.
„Að miklu leyti vegna greiningarvinnu sinnar fyrir leikina. Hann tók áhættu með að láta Casper U. Mortensen, á sínu fyrsta stórmóti, vera einan í vinstra horninu (Anders Eggert var meiddur en var þó í lagi fyrir ÓL). Hann fórnaði þjóðhetju í Hans Lindberg og var með Lasse Svan einan í hægra horninu,“ segir Philipsen og hrósaði Guðmundi einnig fyrir þá djörfu ákvörðun að hafa valið Morten Olsen, sem einnig er að spila á sínu fyrsta stórmóti, í staðinn. Guðmundur trúði því einfaldlega að Olsen gæti gert gæfumuninn.
„Ég endurtek þrjú fyrstu nöfnin: Casper U. Mortensen, Lasse Svan og Morten Olsen. Erum við sammála um að það sé gott að landsliðsþjálfarinn hafi valið þessar þrjár skyttur?“ skrifar Philipsen og svarar um leið.
„Þeir eru nálægt því að vera þrír bestu leikmenn Danmerkur í Future Arena (leikvanginum í Ríó). Þetta er einfaldlega góð vinna hjá þjálfaranum. Guðmundsson, klappaðu sjálfum þér á öxlina,” skrifar Philipsen ánægður.
Vendipunkturinn kom í leiknum gegn Katar að mati Philipsen en að margra mati þótti yfirmaður Guðmundar, Ulrik Wilbek, gagnrýna hann að ósekju eftir tapið gegn Króötum.
„Síðan þá hefur engin talað um mistök hjá Guðmundi. Í stöðunni 6:10 gegn Katar með litlausan sóknarleik gerðist eitthvað. Mikkel Hansen var tekinn af velli og Michael Damgaard og Morten Olsen fengu leyfi til þess að spila villtan handbolta með miklum árangri,” segir Philipsen.
„Og hoppsa, við erum farin að þekkja handboltalandsliðið á ný. Hluta af heiðrinum á Guðmundur Guðmundsson,“ segir Philipsen að lokum.