„Maður fær svolítið flashback“

Guðmundur Guðmundsson og Kasper Søndergaard fagna eftir að sigurinn á …
Guðmundur Guðmundsson og Kasper Søndergaard fagna eftir að sigurinn á Pólverjum og sæti í úrslitaleik Ólympíuleikanna var í höfn. AFP

„Ég er ótrúlega stoltur að ná þessum árangri, og að komast í úrslitaleikinn í annað sinn á átta árum. Það er mjög sérstakt,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska karlalandsliðsins í handbolta, eftir sigurinn á Póllandi í undanúrslitum Ólympíuleikanna í nótt.

Danmörk hafði betur í framlengdum leik, 29:28, og mætir því Frakklandi í úrslitaleiknum á sunnudag. Það var einmitt Frakkland sem var andstæðingur Íslands, undir stjórn Guðmundar, í úrslitaleik Ólympíuleikanna 2008, þegar Ísland fékk silfur.

„Það er svakalegt verkefni [að mæta Frökkum]. Maður fær svolítið „flashback“, frá því fyrir átta árum. Mig, og okkur, langar til að fara alla leið núna og ná í gull. Það er frábært að vinna silfur, en okkur langar verulega að verða ólympíumeistarar,“ sagði Guðmundur, stoltur af afreki næturinnar.

Mjög sérstakt að ná þessu með tveimur þjóðum

„Það er vissulega mjög sérstakt að hafa komist í úrslitaleik Ólympíuleikanna með tveimur þjóðum, og ég er hálfhrærður yfir þessu ef ég á að segja alveg eins og er. Þetta var gríðarlega erfiður leikur, jafn og allt gat gerst, en leikmenn sýndu svakalegan karakter með því að koma svona grimmir inn í framlenginguna eftir þetta jöfnunarmark. Það var kannski lykillinn að sigrinum, en við hefðum getað unnið þetta í venjulegum leiktíma líka,“ sagði Guðmundur, en Michal Daszek jafnaði fyrir Pólland með ótrúlegu skoti í lok venjulegs leiktíma:

Guðmundur Guðmundsson og Mads Mensah Larsen kátir eftir sigurinn á …
Guðmundur Guðmundsson og Mads Mensah Larsen kátir eftir sigurinn á Pólverjum í nótt. AFP

„Þetta mark fer nú í sögubækurnar sjálfsagt. Það var mjög erfitt, en ég sagði við drengina að halda bara ró sinni og koma inn af krafti í framlenginguna. Þetta snerist um að láta þetta ekki slá sig út af laginu, og þeir gerðu það mjög vel,“ sagði Guðmundur. Piotr Wyszomirski var stórkostlegur í marki Pólverja og að öðrum ólöstuðum maðurinn á bak við það að þeir kæmust í framlengingu:

„Hann varði allt þarna á tímabili. Það var rosalega erfitt. Við sköpuðum okkur færi en misnotuðum hvert dauðafærið á fætur öðru. Mér fannst rosalega mikilvægt hjá mér að láta okkur spila sjö á móti sex í sóknunum undir lokin. Það var ákveðin áhætta sem borgaði sig,“ sagði Guðmundur.

Hugsa ekkert um hvað fjölmiðlar skrifa

Eins og fjallað var um á mbl.is í gær hefur Guðmundur ekki átt því að venjast að danskir fjölmiðlar ausi hann lofi, en Dan Philipsen, ritstjóri TV2 Sport, hrósaði honum mjög eftir að Danir komust í undanúrslitin. Guðmundur segist ekkert spá í svona löguðu:

„Ég er alveg hættur að hugsa um nokkuð slíkt. Það hefur gengið á ýmsu hjá mér. Ég hef tekið þann pól í hæðina í þessu starfi að einbeita mér fullkomlega að liðinu og mínu starfi, og ekki hugsa neitt um það hvað fjölmiðlar eða þessir mörgu sérfræðingar í Danmörku segja. Handbolti er mjög stór íþrótt í Danmörku, og miklar kröfur gerðar, margir sem fjalla um þetta, og þá er það bara eins og það er. Ég held að mér hafi tekist mjög vel að vinna úr þessu, og halda mig bara frá fjölmiðlunum. Ég les þá ekki, til dæmis, heldur einbeiti mér bara að minni vinnu.“

Guðmundur Guðmundsson kom Íslandi í úrslitaleik Ólympíuleikanna árið 2008. Hér …
Guðmundur Guðmundsson kom Íslandi í úrslitaleik Ólympíuleikanna árið 2008. Hér fagnar hann eftir að hafa slegið Pólverja út í 8-liða úrslitum, en í nótt stýrði hann Dönum til sigurs á Pólverjum í undanúrslitum. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert