Guðmundur Þórður Guðmundsson og lærisveinar hans í danska landsliðinu í handknattleik eru ólympíumeistarar eftir 28:26 sigur á Frakklandi í úrslitum Ólympíuleikanna sem fara fram í Ríó í Brasilíu.
Danska liðið var öflugt í dag. Liðið byrjaði ekkert svakalega vel og lenti undir í fyrri hálfleiknum en vann sig svo inn í leikinn og kláraði fyrri hálfleikinn tveimur mörkum yfir, 16:14.
Í þeim síðari hélt liðið svo áfram að leika listir sínar. Danska liðið var allt að fimm mörkum yfir á kafla í leiknum en hélt tveggja til þriggja marka forystu síðustu mínúturnar. Leiknum lauk með 28:26 sigri danska liðsins.
Mikkel Hansen var í essinu sínu í dag og var með átta mörk fyrir danska liðið. Michael Guigou í franska liðinu var með sex mörk. Nikola Karabatic var svo með fimm mörk.
Þetta er í annað sinn sem Guðmundur stýrir landsliði til verðlauna á Ólympíuleikunum en hann fékk silfur með íslenska landsliðinu í Peking árið 2008.