Caster Semenya fagnaði sigri í 800 metra hlaupi kvenna á Ólympíuleikunum í Ríó á síðasta kvöldi frjálsíþróttakeppni leikanna.
Aníta Hinriksdóttir keppti í undanrásum 800 metra hlaupsins og setti þá nýtt Íslandsmet, en hún komst ekki áfram í undanúrslit. Átta keppendur hlupu í úrslitunum í kvöld og var Semenya talin sigurstranglegust, og hún stóð undir væntingum með því að vinna öruggan sigur á nýju, suðurafrísku meti, eða 1:55,28 mínútu.
Francine Niyonsaba frá Búrúndí varð önnur á 1:56,49 mínútu og Margaret Wambui frá Keníu tók bronsið á 1:56,89. Sex hlauparanna hlupu undir 1:58 og Kate Grace varð síðust á 1:59,57.
Bretinn Mo Farah vann öruggan sigur í 5.000 metra hlaupi karla. Hann hafði áður unnið 10 km hlaupið í Ríó, en þetta er í annað sinn sem hann verður tvöfaldur ólympíumeistari eftir að hafa afrekað það einnig á heimavelli í London 2012. Aðeins Lasse Viren frá Finnlandi hefur unnið sama afrek í þessum tveimur greinum, en hann vann þær árin 1972 og 1976.
Farah vann hlaupið í kvöld á 13:03,30 mínútum en Hagos Gebrhiwet frá Eþíópíu varð annar á 13:04,35. Bernard Lagat frá Bandaríkjunum tók svo bronsið.
Ruth Beitia frá Spáni vann sigur í æsispennandi hástökkskeppni. Hún fór hæst yfir 1,97 metra en það gerðu þrjár aðrar. Beitia hafði hins vegar ekki fellt rána einu sinni þegar þarna var komið við sögu. Mirela Demireva frá Hvíta-Rússlandi fékk silfur en hún hafði fellt 1,88 metra einu sinni, en farið yfir næstu tvær hæðir í fyrstu tilraun. Blanka Vlasic frá Króatíu fékk bronsið en Chaunte Lowe frá Bandaríkjunum missti af verðlaunum, eftir að hafa farið yfir 1,97 í þriðju tilraun sinni.
Matthew Centrowitz frá Bandaríkjunum varð ólympíumeistari í 1.500 metra hlaupi en hann kom í mark á 3:50,00 mínútum, aðeins 11 sekúndubrotum á undan Taoufik Makhloufi frá Alsír. Nicholas Willis frá Nýja-Sjálandi fékk brons en hann kom í mark á 3:50,24.
Thomas Röhler frá Þýskalandi vann keppni í spjótkasti með því að kasta 90,30 metra í fimmtu og næstsíðustu tilraun. Julius Yego frá Keníu hafði kastaði 88,24 metra í fyrstu tilraun og var með forystuna fram að fimmta kasti Röhlers, en fékk silfur. Keshorn Walcott frá Trínidad og Tóbagó varð þriðji með 85,38 metra kasti, sex sentímetrum lengra en Johannes Vetter frá Bretlandi.
Kvöldinu og frjálsíþróttakeppni Ólympíuleikanna lauk svo á 4x400 metra boðhlaupum kvenna og karla. Sveit Bandaríkjanna vann í boðhlaupi kvenna á 3:19,06 mínútum, rúmri sekúndu á undan Jamaíku, en þessar sveitir voru í algjörum sérflokki. Bretar fengu bronsið. Sveit Bandaríkjanna skipuðu þær Courtney Okolo, Natasha Hastings, Phyllis Francis og Allyson Felix. Felix náði þar með í sín sjöttu ólympíugullverðlaun á ferlinum.
Bandaríkin fögnuðu einnig sigri í boðhlaupi karla og var sá sigur enn öruggari. Sveit Botsvana náði reyndar að hanga í Bandaríkjamönnum fram að lokasprettinum en endaði svo í 5. sæti. Bandaríkin komu í mark á 2:57,30 mínútum en sveitina skipuðu þeir Arman Hall, Tony McQuay, Gil Roberts og Lashawn Merritt. Jamaíka fékk silfrið á 2:58,16 og Bahama varð í þriðja sæti á 2:58,49, aðeins þremur sekúndubrotum á undan Belgíu sem var með Borlee-bræðurna þrjá í sinni sveit.
Nú er eina frjálsíþróttagreinin sem eftir stendur maraþon karla, sem keppt verður í á morgun, sunnudag, kl. 12.30.