„Þú ert meira en þjóðargersemi“

Mo Farah fagnar í Ríó
Mo Farah fagnar í Ríó AFP

Breskir fjölmiðlar halda vart vatni yfir árangri Mo Farah sem varð Ólympíumeistari bæði í 5 og 10km hlaupi, annað skiptið í röð. Farah er innflytjandi í Bretlandi og kemur upphaflega frá Sómalíu en vinsældir hans í Bretlandi eru gríðarlegar eftir sigrana í London 2012. 

BBC bendir á að Farah sé nú orðinn sigursælasti hlaupari frá upphafi í þessum vegalengdum ef miðað er við sigra á stórmótum. Farah státar af níu gullverðlaunum á ÓL og HM. Með síðari sigri sínum í Ríó fór hann fram úr Dejen Gebremeske frá Eþíópíu. 

Brendan Foster sem lýsti frjálsum íþróttum á leikunum fyrir BBC dró hvergi af sér þegar hann tjáði sig um Farah: „Þvílíkt augnablik. Stórkostleg frammistaða. Þvílíkt forréttindi að sjá þennan mann ná í sín fjórðu ÓL verðlaun með stæl. Hann gerði það á þann eina hátt sem hann þekkir. Mo þú ert fjársjóður. Þú ert meira en þjóðargersemi. Þú ert sá besti sem við höfum teflt fram og einn besti hlaupari sem við höfum nokkurn tíma séð.“

Guardian segir Farah vera töfrandi og segir engan hata Farah þótt þjálfari hans hafi ratað í fréttirnar vegna lyfjamisferlis íþróttafólks sem hann hafði þjálfað. 

Daily Mail segir Farah verða orðinn besta hlaupara sem keppt hafi fyrir Bretland og það sé engin spurning. Er hann auk þess sagður einn besti íþróttamaður Breta.

Bretar eru í skýjunum með árangurinn í Ríó en íþróttafólk Breta hefur unnið til 65 verðlauna á leikunum og leikur þar með eftir góðan árangur á heimavelli fyrir fjórum árum. 

Frétt mbl um sigur Farah

Farah vel fagnað á Ólympíuleikvanginum.
Farah vel fagnað á Ólympíuleikvanginum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert