Bandaríkin hafa nokkra yfirburði þegar talin eru saman þau verðlaun sem þjóðir unnu á Ólympíuleikunum sem fram fóru í Ríó í Brasilíu undanfarnar þrjár vikur og lauk í gær. Bandaríkin unnu 121 verðlaun á leikunum, en Kínverjar sem unnu næstflest verðlaun fóru heim með 70 verðlaun og Bretar komu þar á eftir með 67 verðlaun.
Bandaríkin unnu til 46 gullverðlauna, nældu sér í 37 silfurverðlaun og fengu 38 bronsverðlaun. Bretar tryggðu sér 27 gullverðlaun, 23 silfurverðlaun féllu þeim í skaut og þeir tryggðu sér 17 bronsverðlaun. Kínverjar fengu 26 gullmedalíur um hálsinn, hlutu 18 sinnum silfuverðlaun og í 26 skipti urðu bronsverðlaun hlutskipti þeirra.