Ólympíuleikunum sem fram fóru í Ríó í Brasilíu í ár lauk í gær með pompi og prakt. Eftir þrjár vikur af keppni í hinum ýmsu íþróttagreinum héldu 59 íþróttamenn glaðbeittir á heimahagana með gullverðlaun um hálsinn. Níu keppendur nældu sér í söguleg verðalaun með því að vinna fyrstu gullverðlaun þjóða sinna.
Fídjí vann gullverðlaun í sjö manna ruðningi, en liðið bar sigur úr býtum gegn Bretlandi í úrslitaleik keppninnar og tryggði þjóðinni sín fyrstu gullverðlaun. Verslanir skelltu í lás og bankar lokuðu útibúum sínum þegar Fídjímenn streymdu út á götur til þess að fagna sigrinum.
Voreqe Bainimarama, forsætisráðherra Fídjí, gaf út tilskipun þess efnis að í dag væri opinber frídagur og að strætisvagnar myndu ferja fólk á fagnaðarlætin án endurgjalds. Hátíðarhöld til þess að taka á móti liðsmönnum þegar þeir komu heim fóru fram á þjóðarleikvanginum í Suva, höfuðborg Fídjí.
Jórdanar voru eðlilega himinlifandi þegar Ahmad Abughaush lagði Rússann Alexey Denisenko í úrslitaviðureign í undir 68 kílógramma flokki í taekwondo karla á leikunum og tryggði sér þar af leiðandi gullverðlaun.
Konungsfjölskyldan í Jórdaníu vakti fram á nótt til þess að fylgjast með viðureigninni. Abdullah II, konungur Jórdaníu, hringdi í þennan 20 ára viðskiptafræðinema sem tryggði þjóðinni sín fyrstu gullverðlaun og óskaði honum til hamingju með þennan sögulega áfanga. Þá sótti einkaflugvél konungsins Abughaush og flaug honum frá Ríó til Jórdaníu.
Bahrain var annað Mið-Austurlandið sem vann söguleg gullverðlaun þegar hinn 19 ára gamli Ruth Jebet kom fyrst í mark í 3.000 metra hindrunarhlaupi, en Jebet hljóp á næstbesta tíma sögunnar. Sheikh Nasser Bin Hamada al-Khalifa, sonur konungsins í Bahrain og forseti ólympíunefndarinnar í Bahrain, óskaði Jebet til hamingju á Twitter-síðu sinni.
Singapúr braut ísinn og vann sín fyrstu gullverðlaun þegar Joseph Schooling hafði betur gegn æskuhetju sinni Michael Phelps í 100 metra flugsundi. Schooling var vitanlega hæstánægður með sigurinn og íbúar í Singapúr fögnuðu sigri hans fram á rauða nótt með sigurskrúðgöngu.
Kósóvó eignaðist sinn fyrsta gullverðlaunahafa þegar Majlenda Kelmindi glímdi til sigurs í undir 52 kílógramma flokki í júdó kvenna. Kelmindi grét af gleði þegar sigurinn var í höfn og hún gat ekki leynt gleði sinni.
Kósóvó lýsti yfir sjálfstæði árið 2008 og varð hluti af Alþjóðaólympíunefndinni í desember árið 2014. Þetta er í fyrsta skipti sem Kósóvó tekur þátt í aljóðlegum íþróttaviðburði af þessari stærðargráðu og gullverðlaun féllu þjóðinni í skaut í fyrstu atrennu.
Isa Mustafa, forsætisráðherra Kósóvó, tók á móti Kelmindi á flugvellinum í Pristina, höfuðborg landsins. Kelmindi fór svo um borgina á tveggja hæða strætisvagni og heilsaði þúsundum aðdáenda sinna sem lögðu leið sína á götur borgarinnar.
Víetnam var hársbreidd frá því að vinna sín fyrstu gullverðlaun á Ólympíuleikunum í London árið 2012 þegar Hoang Xuan Vinh lenti í öðru sæti í skotfimi af 10 metra færi með loftskammbyssu.
Hoang Xuan Vinh bætti upp fyrir vonbrigðin frá því fyrir fjórum með því að tryggja sér sigur í greininni að þessu sinni og batt þar með enda á 60 ára bið Víetnam eftir gullverðlaunum á Ólympíuleikum.
Búist er við því að Hoang Xuan Vinh fái um það bil 100.000 dollara frá víetnömskum stjórnvöldum fyrir afrek sitt, en það er 50 sinnum meira en meðallaun í Víetnam sem eru um það bil 2.100 dollarar.
Tadjikistan sem varð sjálfstætt ríki árið 1991 fagnaði sínum fyrsta gullverðlaunahafa á Ólympíuleikum, en Dilshod Nazarov færði þjóðinni sín fyrstu gullverðlaun. Nazarov er formaður frjálsíþróttasambands Tadjikistan.
Undirskriftasöfnun hefur verið hrint af stað þar sem farið er fram á að Emomali Rahmon, forseti Tadjikistan, sæmi Nazarov æðsta afreksmerki landsins. Einungis sex einstaklingar hafa hlotið þá heiðursnafnbót síðan árið 1997.
Púertó Ríkó nældi sér nokkuð óvænt í sinn fyrsta gullverðlaunahafa, en Monica Puig sem var í 35. sæti á heimslitanum í tennis kvenna varð fyrst til þess að vinna gullverðlaun fyrir þjóðina. Puig varð níundi verðlaunahafi Púerto Ríkó og hún varð fyrst til þess að vera í efsta sæti á Ólympíuleikum.
Puig bar sigurorð af Þjóðverjanum Angelique Kerber í úrslitaleik keppninnar, en Kerber var í öðru sæti á heimslistanum í tennis kvenna fyrir úrslitaleikinn og sigur Puig var því nokkuð óvæntur.
Fílabeinsströndin hreppti sín fyrstu gullverðlaun á Ólympíuleikum þegar Cheick Sallah Cisse vann gullverðlaun í undir 80 kílógramma flokki í taekwondo. Cisse tryggði sér sigurinn í úrslitaviðureigninni gegn Bretanum Lutalo Muhammad með sparki á lokasekúndum viðureignarinnar.
Kúveitinn Fehaid al-Deehani varð síðan fyrstur til þess að vinna ólympíugull undir merkum ólympíufánans, en hann fór með sigur af hólmi í skotfimi. Al-Deehani keppti undir merkjum ólympíufánans þar sem Alþjóðaólympíunefndin meinaði keppendum frá Kúveit þátttöku á leikunum.