Speedo sparkar Lochte

Ryan Lochte á blaðamannafundi í Ríó í aðdraganda Ólympíuleikanna.
Ryan Lochte á blaðamannafundi í Ríó í aðdraganda Ólympíuleikanna. AFP

Lygasaga bandaríska sundmannsins Ryan Lochte um að hafa orðið fyrir vopnuðu ráni í Ríó í Brasilíu eftir þátttöku sína á Ólympíuleikunum þar í borg hefur orðið til þess að sundfataframleiðandinn Speedo hefur ákveðið að rifta samningi sínum við Lochte.

Þá hafa tískuvöruframleiðandinn Ralph Lauren, húðvörumerkið Syneron-Candela og japanski dýnuframleiðandinn Airweave einnig sagt skilið við Lochte.

Lochte var fremstur í flokki fjögurra bandarískra sundmanna sem freistuðu þess að leyna skemmdarverki sínu er þeir brutu klósetthurð á bensínstöð í Ríó. Gerðu þeir það með því að skálda sögu um hafa lent í vopnuðu ráni á bensínstöðinni.

Vopnuðu ræningjarnir í sögu Lochte og félaga hans voru hins vegar öryggisverðir sem voru að hindra það að bandarísku sundmennirnir kæmust frá skemmdarverki sínu án þess að greiða skaðabætur.  

Speedo hefur enn fremur ákveðið að leggja 50 þúsund dollara eða sex milljónir íslenskra króna í hjálparstarf ætlað bágstöddum börnum í Brasilíu. Ljóst er að orðspor Lochte hefur beðið mikinn hnekki og uppátæki hans mun hafa varanleg áhrif á feril hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert