Stórsigur í úrslitaleiknum

Kevin Durant og DeAndre Jordan með verðlaunin.
Kevin Durant og DeAndre Jordan með verðlaunin. AFP

Sigursælasta hópíþróttalið í sögu Ólympíuleikanna, karlalið Bandaríkjanna í körfubolta, vann stórsigur á Serbum í úrslitaleiknum í Ríó í kvöld. 

Bandaríkin sigraði með þrjátíu stiga mun 96:66 en að loknum fyrri hálfleik var staðan 52:29. 

Var þetta fimmtándi sigur Bandaríkjanna í körfubolta karla á Ólympíuleikum og þriðja gullið í röð á ÓL. Liðið vann nokkra nauma sigra á leikunum í Ríó en sýndi hvers það er megnugt í úrslitaleiknum og með því að vinna firnasterkt lið Spánverja í undanúrslitum 82:76. 

Kevin Durant var stigahæstur í úrslitaleiknum með 30 stig en hann var einnig í sigurliði Bandaríkjanna í London 2012. Nemanja Nedovic var stigahæstur hjá Serbíu en Ísland mætti liði Serbíu á EM í Berlín fyrir tæpu ári síðan. 

Spánverjar höfnuðu í 3. sæti og fengu bronsverðlaun en þeir eru jafnframt Evrópumeistarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert