Þórir Hergeirsson bætti við magnaða afrekaskrá sína sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta þegar hann stýrði liðinu til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó um helgina. Noregur vann stórsigur á Hollandi í leiknum um bronsið, 36:26, eftir naumt tap í framlengdum undanúrslitaleik gegn Rússum sem urðu svo ólympíumeistarar með því að vinna Frakka.
Þetta eru áttundu verðlaunin sem Noregur vinnur til undir stjórn Þóris, á þeim níu stórmótum sem liðið hefur getað keppt á síðan hann tók við sem aðalþjálfari árið 2009. Undir stjórn Þóris hefur Noregur tvívegis orðið Evrópumeistari (2010 og 2014), tvívegis heimsmeistari (2011 og 2015), og ólympíumeistari 2012. Þá fékk liðið silfur á EM 2012. Það eru því nánast vonbrigði að fá „bara“ brons fyrir Þóri og hans lið, en hann var ánægður með það hvernig sitt lið hóf leikinn gegn Hollandi þar sem aldrei var spurning hvernig færi. En hver er galdur þjálfarans við að ná stöðugt svona góðum árangri?
„Þetta er bara sveitamennska af Suðurlandinu. Þetta kemur bara frá Selfossi og fjölskyldunni þar. Þetta snýst bara um hörkuvinnu, og ekkert annað en það. Að vera alltaf á tánum, alltaf að leita eftir einhverju til að bæta og vera flinkur að styrkja það sem er gott,“ sagði Þórir léttur, en að sama skapi af fullri alvöru.