Lilesa fór ekki heim til Eþíópíu

Feyisa Lilesa krossaði hendur fyrir ofan höfðu sér til stuðnings …
Feyisa Lilesa krossaði hendur fyrir ofan höfðu sér til stuðnings baráttu Oromo-fólksins er hann fór yfir marklínuna. Lilesa hélt ekki heim til Eþíópíu eftir að Ólympíuleikunum lauk. AFP

Eþíópíski maraþonhlauparinn Feyisa Lilesa, sem hlaut silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó, hélt ekki heim til Eþíópíu ásamt öðrum þátttakendum á leikunum. Lilesa hafði áður sagst óttast að verða beittur pólitískum ofsóknum eftir merkjasendingu sína þegar hann fór yfir marklínuna, þrátt fyrir að eþíópísk yfirvöld fullyrtu að svo yrði ekki.

Lilesa krossaði saman höndum fyrir ofan höfuð sér til stuðnings þjóðarbrotinu Oromo. Oromo-fólkið sem er stærsti þjóðfélagshópur Eþíópíu, hefur verið útskúfað, fangelsað og drepið af stjórnvöldum í Eþíópíu undanfarin ár.

Fréttamaður AFP-fréttastofunnar á flugvellinum í Addis Ababa, staðfesti að Lilesa hefði ekki verið í hópi eþíópísku íþróttamannanna er þeir sneru til baka. Stjórn eþíópíska íþróttasambandsins tók á móti íþróttafólkinu á flugvellinum og óskaði þeim til hamingju með árangur sinn, en minntist ekki orði á árangur Lilesa, sem vann eina af átta ólympíumedalíum Eþíópíumanna. Né heldur vildi stjórn sambandsins svara spurningum fréttamanna um Lilesa.

AFP segir fréttir hafa borist af því að Lilesa ætli að óska eftir hæli í Bandaríkjunum, en talsmaður bandaríska innanríkisráðuneytisins neitar að staðfesta hvort svo sé.

Silfurverðlaunahafi óttast um líf sitt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert