„Þessi staðreynd síast inn hægt og sígandi. Það að vera þjálfari sigurliðs á Ólympíuleikum er tvímælalaust það stærsta sem ég hef upplifað á mínum ferli,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari ólympíumeistara Dana í handknattleik karla, þegar Morgunblaðið náði stuttlega af honum tali í gær þar sem hann var að búa sig undir brottför frá Rio de Janeiro í Brasilíu í gær.
Á sunnudaginn varð Guðmundur Þórður þriðji íslenski íþróttaþjálfarinn til þess að þjálfa íþróttamenn sem vinna til gullverðlauna á Ólympíuleikum. Hinir eru Vésteinn Hafsteinsson sem þjálfaði Eistlendinginn Gert Känter sem varð ólympíumeistari í kringlukasti á Pekingleikunum 2008 og Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari ólympíumeistara Noregs í handknattleik kvenna á Londonleikunum fyrir fjórum árum.
„Það er erfitt að lýsa þessari tilfinningu með orðum. Ferillinn að gullverðlaununum er svo langur. Hann hefur tekið mörg ár. Ég fékk tækifæri fyrir átta árum með íslenska landsliðinu og nú fékk ég annan möguleika með danska landsliðinu. Það er alls ekki sjálfgefið að þjálfarar fái eitt tækifæri til þess að standa í þessum sporum hvað þá að fá annað tækifæri til þess eins og ég fékk að þessu sinni,“ sagði Guðmundur.