Rússar verða að biðjast afsökunar

Ólympíuleikar fatlaðra fara fram í Ríó í Brasilíu í september, …
Ólympíuleikar fatlaðra fara fram í Ríó í Brasilíu í september, en Rússum hefur verið meinuð þátttaka í leikunum. AFP

Embættismenn sem stóðu að baki víðtækri og kerfisbundinni lyfjamisnotkun ættu að biðja íþróttamenn afsökunar. Þetta sagði Craig Spence, talsmaður alþjóðaólympíunefndar fatlaðra í samtali við BBC.

Rússneskir embættismenn halda því fram að ákvörðun alþjóðaólympíunefndar fatlaðra eigi rót sína að rekja til pólitískrar andstöðu við rússnesku þjóðina og Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, sagði ákvörðunina byggja að stóru leyti á pólitískri herferð gegn rússnesku íþróttamönnum og rússnesku þjóðinni í heild sinni. 

Spence segir að rússneskir embættismenn ættu að líta í eigin barm í stað þess að fetta fingur út í þá ákvörðun alþjóðaólympíunefndar fatlaðra að banna allar rússneska íþróttamenn frá Ólympíuleikum fatlaðra sem fram fara í Ríó í Brasilíu í september vegna lyfjamisnotkunarinnar.

Ákvörðun ólympíunefndar fatlaðra sem staðfest var af alþjóðaíþróttadómstólnum í gær verður þess valdandi 267 rússneskum íþróttamönnum verður meinuð þátttaka á Ólympíuleikum fatlaðra sem hefjast 7. september næstkomandi. 

„Að sjálfsögðu finnum við til með þeim íþróttamönnum sem ákvörðunin bitnar á. Það eru rússneskir embættismenn sem urðu til þess að þessi ákvörðun var tekin og þeir eiga að biðja þessa íþróttamenn afsökunar að mínu mati.

Við viljum að sjálfsögðu hafa rússneska íþróttamenn á leikunum, en til þess að svo geti orðið verða stjórnvöld að sýna fram á breytt verklag í lyfjaeftirliti og sýna skýran samstarfsvilja til þess að koma í veg fyrir lyfjamisnotkun,“ sagði Spence enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert