Yoshiro Mori, formaður skipulagsnefndar Ólympíuleikanna í Tókýó, mun segja af sér eftir að hafa sætt gagnrýni fyrir óviðeigandi ummæli um konur.
Í síðustu viku lét hann hafa eftir sér að konur tali of mikið og að ef fjöldi kvenna í stjórn nefndarinnar yrði aukinn tækju fundir lengri tíma en áður. Skipulagsnefndin hafði mælst til þess að auka hlutfall kvenna í nefndinni upp í 40 prósent, en sem stendur eru fimm af 24 nefndarmönnum konur.
„Ef við fjölgum konum í stjórn nefndarinnar verðum við að ganga úr skugga um að þær fái bara að tala takmarkað, þær eiga erfitt með að ljúka máli sínu, sem er pirrandi,“ sagði Mori.
Hann baðst í kjölfarið afsökunar á ummælunum en sagðist ekki ætla að hætta. Eftir mikla gagnrýni, þar á meðal frá einum af stærsta styrktaraðila Ólympíuleikanna, Toyota, er nú búist við því að Mori stígi formlega til hliðar á sérstökum nefndarfundi á morgun.
Auk gagnrýni úr röðum Toyota hafa 400 manns dregið til baka umsóknir sínar um að vera sjálfboðaliðar á leikunum, sem áætlað er að fari fram í sumar.
Þá klæddust kvenkyns þingmenn hvítu í mótmælaskyni vegna ummælanna og nokkrir karlkyns þingmenn gerðu slíkt hið sama þeim til stuðnings.