Japanir byrja bólusetningar seint – Ólympíuleikarnir í hættu?

Yoshihide Suga, forsætisráðherra Japans.
Yoshihide Suga, forsætisráðherra Japans. AFP

Í dag byrjuðu Japanir að bólusetja landsmenn sína við kórónuveirunni, rúmum tveimur mánuðum eftir að aðrar stórþjóðir hófu bólusetningar. Seinagangur Japana vekur upp spurningar um hvort það sé mögulegt að halda Ólympíuleikana í sumar, en þeim var sem kunnugt er frestað um eitt ár vegna veirufaraldursins.

Japan hefur farið vel út úr faraldrinum í samanburði við aðrar stórþjóðir en áhyggjur eru þó af að skortur verði á bóluefni frá þeim aðilum sem Japan treystir á að flytja inn frá, auk þess sem fjöldi Japana geldur varhug við því að láta sprauta í sig bóluefni vegna ótta við sjaldgæfar aukaverkanir.

Ólympíuleikarnir eiga að hefjast í júlí en talið er ómögulegt fyrir Japani að ná fram hjarðónæmi fyrir þann tíma.

Þá gætir ansi mikillar andstöðu almennt á meðal Japana við áform stjórnvalda um að halda sig við mótshaldið. Um 80 prósent þeirra sem spurðir hafa verið nýlega í skoðanakönnunum í japönskum fjölmiðlum styðja það að hætta við að halda Ólympíuleikana eða fresta þeim aftur.

Milljarðar í peningum eru í húfi fyrir Japan og stjórnvöld líta sömuleiðis til þess að nágrannar þeirra í Kína munu halda Vetrarólympíuleikana á næsta ári, sem eykur vilja þeirra til þess að ná að láta Ólympíuleikana fara fram í sumar.

Yoshihide Suga, forsætisráðherra Japans, talar enda á þessa leið og stefnir ásamt stjórnarliðum sínum ótrauður áfram að því að halda leikana í júlí, og sagði þá vera „sönnun um sigur mannsandans gegn faraldrinum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert