Erlendir sjálfboðaliðar ekki leyfðir

Toshiro Muto, framkvæmdastjóri Ólympíuleikanna í Tókýó.
Toshiro Muto, framkvæmdastjóri Ólympíuleikanna í Tókýó. AFP

Skipuleggjendur Ólympíuleikanna í Tókýó í Japan hafa ákveðið að leyfa ekki erlenda sjálfboðaliða á leikunum í sumar, fyrir utan örfáa sem teljast mega ómissandi.

Þessi ákvörðun fylgir í kjölfar þeirrar ákvörðunar að leyfa ekki áhorfendur frá öðrum löndum á leikunum. 600.000 miðar á Ólympíuleikana sem voru keyptir af erlendum aðilum verða endurgreiddir og það sama á við um 30.000 miða sem voru keyptir á Ólympíuleika fatlaðra.

„Með þá ákvörðun í huga höfum við einnig tekið ákvörðun um að hleypa ekki sjálfboðaliðum utan Japans inn í landið til þess að taka þátt í leikunum,“ sagði Toshiro Muto, framkvæmdastjóri leikanna, í dag.

Þetta þýðir að 110.000 erlendir sjálfboðaliðar, sem höfðu margir hverjir beðið lengi upp á von og óvon eftir fréttum varðandi hlutverk sitt, munu ekki fá að fara á leikana.

Þá eru einnig miklar líkur á að fjölskyldur íþróttafólks megi ekki fylgja þátttakendum, en þó eiga skipuleggjendur eftir að taka endanlega ákvörðun þar að lútandi. Muto sagði líklegt að þeim yrði líkt og sjálfboðaliðum ekki hleypt inn í landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert