Frjálsíþróttalið Bandaríkjanna hefur hætt við æfingabúðir í Japan, sem voru ætlaðar til undirbúnings fyrir Ólympíuleikana þar í landi, vegna áhyggna í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.
Tókýó-borg, þar sem Ólympíuleikarnir munu hefjast eftir um 10 vikur, býr nú við neyðarástand vegna aukins fjölda kórónuveirusmita.
Æfingabúðirnar áttu að vera í Chiba, borg í grennd við Tókýó, en yfirvöld þar í borg hafa greint frá því að bandaríska liðið hafi hætt við búðirnar vegna „áhyggna í garð íþróttafólks síns,“ þótt bandaríska liðið eða þjálfarar þess hafi ekki tjáð sig enn sem komið er.
Í Japan er einungis búið að bólusetja 2,6 prósent þjóðarinnar og samkvæmt nýlegri könnun vilja 60 prósent Japana að hætt verði við að halda Ólympíuleikana, sem áætlað er að hefjist 23. júlí næstkomandi.