Allt að 10.000 innlendir áhorfendur verða leyfðir á áhorfendapöllum á Ólympíuleikunum í Tókýó í Japan, sem hefjast eftir rúman mánuð. Þeir þurfa þó að fylgja ströngum reglum.
Grímuskyldan er á sínum stað þar sem áhorfendur þurfa að vera með hana á andlitinu öllum stundum á meðan þeir eru staddir á leikvöngum.
Meiri athygli vekur þó að stuðningsmenn mega ekki hrópa eða tala hátt, þótt klapp sé enn þá leyft.
Fyrr á árinu tók japanska ólympíunefndin þá ákvörðun að áhorfendur búsettir annars staðar en í Japan yrðu ekki leyfðir á leikunum vegna kórónuveirufaraldursins.
10.000 verður hámark áhorfenda, að því gefnu að sá fjöldi fari ekki yfir 50 prósent þess fjölda sæta sem leikvangur getur tekið við.