Kórónuveirusmit greindist í Ólympíuþorpinu í Tókýó í dag. Smitið greindist hjá skipuleggjanda, en formaður skipulagsnefndar leikanna segir íþróttafólkið í þorpinu „líklega afar áhyggjufullt“.
Hinn smitaði mun nú vera í einangrun í 14 daga á hóteli. Hann fékk neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku við komuna til Japan áður en hann greindist jákvæður í sýnatöku innan þorpsins. Alls hafa 15 smit sem tengjast leikunum á einhvern hátt greinst í dag.
Leikarnir áttu að fara fram á síðasta ári en var frestað vegna faraldursins. Þeir fara fram að mestu án áhorfenda og strangar sóttvarnatakmarkanir eru í gildi. Íþróttafólk fer í sýnatöku daglega, en leikarnir hefjast 23. júlí.