Bandaríkin unnu sinn fyrsta sigur í knattspyrnu í kvennaflokki á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag er liðið vann 6:1-stórsigur á Nýja-Sjálandi.
Rose Lavelle og Lindsey Horan komu Bandaríkjunum í 2:0 áður en Abby Erceg skoraði sjálfsmark. Betsy Hassett lagaði stöðuna fyrir Nýja-Sjáland á 72. mínútu en Hassett er leikmaður Stjörnunnar.
Það dugði skammt því Christen Press og Alex Morgan bættu við mörkum, áður en Catherine Bott skoraði annað sjálfsmark Nýja-Sjálands og sjötta mark Bandaríkjanna.
Það var mikið fjör er Evrópumeistarar Hollands og Brasilía mættust. Vivianne Miedema kom Hollandi yfir strax á 3. mínútu en Debinha jafnaði á 16. mínútu. Miedema var aftur á ferðinni á 59. mínútu en sex mínútum síðar jafnaði goðsögnin Marta í 2:2.
Ludmila Da Silva kom Brasilíu í 3:2 á 68. mínútu en Dominique Janssen jafnaði fyrir Holland á 79. mínútu og þar við sat. Bæði lið eru með fjögur stig eftir tvo leiki.
Ellen White, leikmaður Manchester City, var hetja Stóra-Bretlands í 1:0-sigri á heimakonum í Japan. Stóra-Bretland tryggði sér sæti í átta liða úrslitum með sigrinum.