Bretarnir Tom Daley og Matty Lee nældu sér í Ólympíugull í samhæfðum dýfingum af 10 metra palli í morgun.
Þeir höfðu þar afar nauman sigur gegn hinum kínversku Cao Yuan og Chen Aisen, sem voru fyrir fram taldir sigurstranglegastir enda Kínverjar búnir að einoka ólympíugull í greininni síðastliðna tvo áratugi.
Daley og Lee enduðu með með samtals 471,81 stig og Cao og Chen enduðu með 470,58 stig.
Um var að ræða fyrsta ólympíugull hins 27 ára gamla Daley á hans fjórðu leikum og fyrsta ólympíugull hins 23 ára gamla Lee á hans fyrstu leikum.
Grét Daley af gleði á verðlaunapallinum og sagðist einmitt ekki hafa getað haldið aftur af tárunum þegar ljóst var að hann og Lee væru búnir að sigra.