Anton Sveinn McKee var annar í mark í riðli sínum í undanrásum í 200 metra bringusundi karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun en hann var ekki meðal þeirra sem komast áfram í undanúrslit.
Anton synti á tímanum 2;11, 64 mínútum og var annar á eftir Denis Petrashov frá Kírgistan, sem synti á 2:10,07. Íslandsmet Antons er frá árinu 2015 þegar hann synti á tímanum 2:10,21. Hann hefði þurft að bæta það met og synda á tímanum 2:09,95 til að komast áfram.
Af þeim 40 keppendum sem skráðir eru til leiks fara sextán bestu í undanúrslitin. Anton hafnaði í 24. sæti, sem eru vonbrigði miðað við þau markmið sem hann setti sér. Hann var hins vegar 25. inn í sundið miðað við tíma. Zac Stubblety-Cook synti á besta tímanum en hann kom í mark á 2:07,37 í riðli fjögur.
Undanúrslitin í 200 metra bringusundi fara fram á morgun, miðvikudag, og úrslitin verða svo á fimmtudaginn, 29. júlí.