Hvítrússnesk íþróttakona sækir um hæli í Japan

Tomoko Uraki, lögfræðingur sem sérhæfir sig í málefnum flóttamanna, ræðir …
Tomoko Uraki, lögfræðingur sem sérhæfir sig í málefnum flóttamanna, ræðir við lögreglu á flugvellinum í Tókýó á sunnudag. AFP

Hvítrússneska frjálsíþróttakonan Krystsina Tsimanouskaya hefur sótt um hæli í Japan eftir að hafa neitað að fylgja fyrirskipunum hvítrússneskra liðstjórnenda um að fara heim fyrr en áætlað var af Ólympíuleikunum í Tókýó. 

Tsimanouskaya, sem er 24 ára, dvaldi í nótt á hóteli á Haneda-flugvellinum í Tókýó. Hún segir að hún hafi verið flutt án vilja hennar á flugvöllinn á sunnudag fyrir að gagnrýna þjálfara hvítrússneska ólympíuliðsins. 

Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi segja að Tsimanouskaya hafi verið tekin úr liðinu vegna andlegs ástands. 

Yfirvöld í Tékklandi og Póllandi hafa boðið frjálsíþróttakonunni landvistarleyfi.Tsimanouskaya er sögð vera íhuga að sækja um hæli í Evrópu. Samkvæmt talsmanni alþjóðlegu ólympíunefndarinnar, Mark Adams, hafa yfirvöld í Japan gætt að Tsimanouskaya og fjölmargir verið í sambandi við hana, m.a. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. 

AFP

Tsimanouskaya leitaði til japönsku lögreglunnar á Haneda-flugvellinum á sunnudag, í því skyni að koma í veg fyrir að hún yrði send með flugi til Hvíta-Rússlands þar sem hún segist óttast um öryggi sitt. Flugið fór án hennar á endanum. 

Hlauparinn, sem átti að keppa í 200 metra hlaupi í dag, hafði kvartað á samfélagsmiðlum yfir að hafa verið skráð í aðra keppni sem hún hafði ekki æft fyrir. Hún var harðlega gagnrýnd í hvítrússneskum fjölmiðlum fyrir ummælin. 

Tsimanouskaya segir að liðstjórnendur hvítrússneska ólympíuhópsins hafi komið á hótelherbergi hennar í kjölfarið og gefið henni klukkustund til að pakka í töskur áður en henni yrði fylgt út á flugvöll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert