„Ég hef litið á það sem svo að þetta sé hluti af prógrammi lífsins og er þakklátur fyrir að fá að taka þátt í þessu með honum.“
Þetta segir Gunnar Már Másson, faðir Más Gunnarssonar sundkappa, sem næstur Íslendinganna keppir á Ólympíumótinu í Tókýó á morgun, föstudag. Þá er fyrsta grein Más af fjórum á dagskrá, 50 metra skriðsundið í S11, flokki blindra.
Gunnar Már, sem á sínum tíma var þekktur knattspyrnumaður með Val, KA og Leiftri, lék sex tímabil af átta á meistaraflokksferli sínum í efstu deild og skoraði 47 mörk í 120 leikjum í tveimur efstu deildum Íslandsmótsins, er í óvenjulegu hlutverki. Hann er svokallaður „bankari“ hjá syni sínum en það er fólgið í því að vera með stöng á sundlaugarbakkanum og banka létt í höfuð hans þegar hann á stutt eftir að bakkanum. Már er blindur eins og áður sagði og þarf því að fá þessa viðvörun í tæka tíð.
Gunnar sagði við Morgunblaðið í Tókýó að hann hefði verið með Má á öllum æfingum og í allri keppni undanfarin þrjú ár.
„Ég hef alla tíð frá því hann hóf að æfa sund níu ára gamall fylgt honum stíft eftir og aðstoðað hann með það sem hann hefur óskað eftir, en síðustu þrjú ár hef ég verið svokallaður bankari á bakkanum við æfingar og keppni og farið með honum á þau mót sem hann hefur tekið þátt í, erlendis og á Íslandi. Ég hef því verið hans stuðningshjól til að létta honum róðurinn í þessu lífsins ferli sem hann er í og það hefur verið afskaplega ánægjulegt að kynnast þessari íþrótt og vera virkur þátttakandi í því sem er að gerast,“ sagði Gunnar Már.
„Síðustu þrjú ár hef ég verið með honum á öllum æfingum, í ljósi þess að fyrir þremur árum fór sjón hans mjög versnandi. Hann tapaði því litla sem hann sá, öryggið í lauginni var þar með ekki lengur til staðar og þá var mjög mikilvægt að grípa inn í og vera til staðar til að fyrirbyggja meiðsli eða slys. Öryggisins vegna hef ég mætt á allar hans æfingar síðan.“
Hann fórnar því miklu til þess að hjálpa syni sínum en kveðst alls ekki horfa á hlutina þannig.
„Ég hef litið á það sem svo að þetta sé hluti af prógrammi lífsins og er þakklátur fyrir að fá að taka þátt í þessu með honum. Ég er þakklátur fyrir að eiga möguleika á því, og þetta er kafli í minni og okkar lífsins bók sem ég hefði ekki viljað missa af.
Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag