Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Kristín Rós Hákonardóttir er sigursælust Íslendinga á Ólympíumóti fatlaðra, Paralympics, í gegnum tíðina eins og áður hefur verið fjallað um í Gömlu ljósmyndinni.
Geir Sverrisson vann hins vegar afrek sem fáir í heiminum geta státað af. Vann hann til verðlauna í tveimur ólíkum íþróttagreinum á Paralympics. Ekki nóg með það heldur fór hann á verðlaunapall í þessum tveimur ólíku greinum, sundi og spretthlaupi, á sama Ólympíumótinu sem er nánast yfirgengilegt.
Á Ólympíumótinu í Barcelona árið 1992 vann Geir til gullverðlauna í 100 metra bringusundi í flokki SB9 og til bronsverðlauna í 100 metra hlaupi í flokki TS4.
Í Seoul árið 1988 hafði Geir fengið silfurverðlaun í 100 metra bringusundi og voru það hans fyrstu verðlaun á Ólympíumóti.
Eftir leikana í Barcelona sneri hann sér að hlaupum og fór þrívegis á verðlaunapall í Atlanta árið 1996. Í 100, 200 og 400 metra hlaupi og fékk silfurverðlaun í öllum tilfellum. Alls fékk hann því sex verðlaun á Ólympíumótum.
Geir keppti fjórum sinnum á Ólympíumótum og var einnig með í Sydney árið 2000. Þar var meðfylgjandi mynd tekin þegar fólk úr íslenska hópnum naut góðgerða hjá hjónunum Lillý Jóhannesdóttur og Lúðvíki Sigurðssyni. Þau höfðu þá búið í Ástralíu frá árinu 1968 en hjá þeim hjónum gistu Geir, Einar Trausti Sveinsson og Kári Jónsson þar til mótið hófst.
Geir er lengst til vinstri á myndinni, þá Lillý, Einar Trausti og Kári sem þá var í þjálfarateymi ÍF. Kári er einnig nú í baklandi keppenda í Tókýó og er á sínu sjötta Ólympíumóti eins og fram kom í viðtali við hann í Morgunblaðinu á dögunum.
Myndina tók Sverrir Vilhelmsson og birtist hún í SunnudagsMogganum hinn 1. október árið 2000.
Geir Sverrisson er eini afreksmaðurinn úr röðum fatlaðra sem valinn hefur verið í landslið ófatlaðra en hann hljóp í boðhlaupssveit Íslands í þremur Evrópubikarkeppnum landsliða.
Geir var tvívegis valinn íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra og var á meðal tíu efstu í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins árið 1993.