Stefnir á París og jafnvel á vetrarleika síðar meir

Arna Sigríður Albertsdóttir nýkomin í markið í dag.
Arna Sigríður Albertsdóttir nýkomin í markið í dag. Ljósmynd/ÍF

Arna Sigríður Albertsdóttir, fyrsti keppandi Íslands í hjólreiðum á Ólympíumóti fatlaðra, hefur þegar sett stefnuna á næsta mót í París eftir þrjú ár og útilokar ekki að reyna líka að komast á vetrarleika Paralympics síðar meir.

Arna varð í ellefta og síðasta sæti í tímatökunni í handahjólreiðum kvenna í gær og í dag varð hún í fimmtánda sæti af sextán keppendum eftir að ein þeirra heltist úr lestinni í miðjum klíðum.

„Ég er þreytt og það var dálítið erfitt að missa af hópnum svona snemma því það sparar manni svo mikla orku að vera inni í hópnum svo einhver taki vindinn fyrir mann. Þess vegna var þetta ströggl frá byrjun og ég var svolítið fúl út í sjálfa mig að missa svona af þeim strax. En síðan var þetta bara gaman, sérstaklega að fara niður brekkurnar á lokakaflanum," sagði Arna þegar mbl.is ræddi við hana á Fuji-kappakstursbrautinni strax eftir keppnina í dag.

Skemmtilegur aukahringur um bæinn

Brautin var ekki eins og í tímatökunni í gær, enda voru nú hjólaðir 27 kílómetrar í stað 17. „Nei, nú var tekinn aukahringur niður í bæinn fyrir neðan og sá hringur var skemmtilegri því brekkurnar þar voru aflíðandi og því hægt að halda hraðanum betur. Í aðalbrautinni er svo kröpp beygja þegar maður fer niður og þá missirðu hraðann mikið niður.“

Hún kvaðst eftir sem áður vera tiltölulega sátt en það væri samt margt fyrir sig til að skoða betur fyrir næstu mót.

„Já, ég er ágætlega sátt. Auðvitað er eitthvað sem maður vill gera getur og lærir þá af því og það eru nokkuð margir punktar í þessu sem ég hefði viljað laga. Ef ég hefði verið aðeins betur undirbúin, fengið aðeins lengri aðdraganda að því að koma hingað, þá hefði ég kannski náð aðeins betri tíma," sagði Arna.

Keppnin í tímatökunni í gær sat í Örnu. „Já, hún gerði það. Það er andlega erfitt að vera síðastur, ekki síður en líkamlega, og þetta er ekki langur tími til að jafna sig á milli keppna og setja upp einhvern undirbúning á milli þeirra. Ég var því betur undirbúin fyrir tímatökuna í gær. Í keppnum er oftast einn dagur á milli þar sem maður getur jafnað sig og undirbúið sig aðeins. Ég er ekki vön að æfa í svona miklum brekkum og það sat svolítið í mér frá því í gær.“

Arna Sigríður í brautinni í dag
Arna Sigríður í brautinni í dag Ljósmynd/ÍF

Engin hvatning betri en þetta

Arna keppti fyrir nokkrum árum á heimsbikarmótum og heimsmeistaramóti en sagði að það væri orðið frekar langt síðan. Hún er hinsvegar farin að skipuleggja næstu árin í íþróttinni og horfir nú þegar til Ólympíumótsins í París árið 2024.

„Já, það er svolítið þægileg tilhugsun að það skulu aðeins vera þrjú ár í næsta Ólympíumót og það er ekkert sem hvetur mann betur áfram en að vera hér og sjá allt sem getur gerst og sjá þetta sport á þessu stigi. Það er engin hvatning betri en þetta til að keyra á það og leggja sig fram næstu þrjú árin og geta þá komist til Parísar. Þetta er besta mögulega veganestið sem maður gat fengið fyrir það þannig að það er alveg 100 prósent planið hjá mér að vera þar árið 2024.“

Þátttaka í fleiri alþjóðlegum mótum er líka á dagskránni hjá henni en þau hafa meira og minna legið niðri í langan tíma.

„Núna þegar fer að draga úr kóvid hljóta að verða fleiri mót sem verður mögulegt fyrir mig að sækja og þá verður auðveldara að skipuleggja sig. Síðustu tvö ár hefur mótunum verið frestað og seinkað og ég er því mjög spennt fyrir því að fara á fleiri alþjóðleg mót sem fyrst.“

Spennt að prófa gönguskíðin líka

Arna keppti á skíðum þar til hún varð fyrir mænuskaða í skíðaslysi sextán ára gömul en hún hefur verið í hjólastól síðan. Hún ætlar að hvíla sig aðeins eftir mótið en sagði að sú hvíld yrði kannski ekki mjög löng. Hana langar aftur á skíðin.

„Ég er reyndar mjög spennt fyrir því að prófa gönguskíðin með hjólunum núna, það er eiginlega næsta plan, og þá verða markmiðin aðeins öðruvísi. Þá fer maður í öðruvísi æfingar með hinu og þá yrði möguleiki að komast út og keppa á veturna.“

Gönguskíði eru keppnisgrein á vetrarólympíumóti fatlaðra og því kannski ekki útilokað að Arna eigi eftir að verða keppandi bæði á sumar- og vetrarleikum.

„Það eru full fáir mánuðir í næstu vetrarleika en kannski verður það möguleiki einhvern tíma í framtíðinni. Þetta eru svipaðar íþróttir á margan hátt, úthaldsíþróttir, og margar stelpur eru í báðum greinum. Af hverju ekki? En ég horfi aðallega til þess að æfingarnar geti orðið skemmtilegri á veturna.“

Arna hefur nú brotið blað og rutt brautina fyrir fatlað hjólreiðafólk. „Ég vona að með þátttökunni hérna hafi ég náð að vekja athygli á því að það er mikið í boði fyrir fatlaða í hjólreiðum. Eins og þið sem hafið verið hérna að fylgjast með hafið séð þá eru þetta ekki bara handahjólreiðar. Hjólreiðar hreyfihamlaðra eru risastór keppnisgrein sem ég held að margir Íslendingar gætu stundað," sagði Arna Sigríður.

Ragnheiður Eyjólfsdóttir aðstoðarkona og þjálfari Örnu við brautina í dag.
Ragnheiður Eyjólfsdóttir aðstoðarkona og þjálfari Örnu við brautina í dag. Ljósmynd/ÍF

Hún stóð sig fáránlega vel

Ragnheiður Eyjólfsdóttir sem var í hlutverki þjálfara Örnu á Ólympíumótinu sagði við mbl.is að hún hefði staðið sig með prýði. „Hún stóð sig fáránlega vel og ég held að við getum öll verið stolt af henni. Hún hefur safnað að sér gríðarlegri reynslu með þátttökunni hérna.

Við Arna erum búnar að fylgjast að í þessu undirbúningsferli og líklega fáum við spennufall hérna á eftir. Það var mögnuð upplifun að sjá þetta allt, auðvitað er allt öðruvísi á svona kóvidleikum, en þetta er eitthvað sem maður á aldrei eftir að gleyma," sagði Ragnheiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert