Hollenska Ólympíunefndin hvetur íþróttamenn sína sem eru á leið á Vetrarólympíuleikana í Peking í Kína í næsta mánuði eindregið til þess að skilja síma sína og fartölvur eftir heima í Hollandi til þess að forðast njósnir Kínverja.
Hollenska dagblaðið De Volkskrant greinir frá þessum áður óþekktu tilmælum nefndarinnar.
Í tilmælunum til þeirra um 30 íþróttamanna auk starfsfólks sem er á leiðinni á leikana í Kína var það hvatt til þess að taka engin tæki í einkaeigu með sér þangað með það fyrir augum að stemma stigu við hvers konar afskiptum frá ríkisfulltrúum Kína.
Samkvæmt Geert Slot, talsmanni hollensku Ólympíunefndarinnar, framkvæmdi nefndin áhættumat í tengslum við ferðina til Peking og þar hafi netöryggi verið eitt af því sem þótti mikilvægt.
„Mikilvægi netöryggis hefur vitanlega aukist á undanförnum árum. En Kína hefur lokað fyllilega fyrir internetið hjá sér, sem gerir það að sérstöku tilviki,“ sagði Slot.
Liðsmönnum Hollands verður orðið úti um áður ónotuð tæki í Kína til þess að vernda persónuupplýsingar þeirra frá vöktun kínverskra yfirvalda.