Einn íslensku ólympíufaranna smitaður

Sturla Snær Snorrason.
Sturla Snær Snorrason. Ljósmynd/SKÍ

Sturla Snær Snorrason, keppandi í alpagreinum á Vetrarólympíuleikunum í Peking, hefur greinst með kórónuveiruna.

Í tilkynningu frá ÍSÍ segir að allir þátttakendur fari daglega í PCR-próf og að mjög vel sé fylgst með öllum sem koma að leikunum. Sturla Snær hafi eins og aðrir íslenskir þátttakendur farið í PCR-próf í morgun en fundið fyrir einkennum á æfingu og því ákveðið að halda sig til hlés og fara jafnframt í annað PCR-próf.

Í framhaldinu kom í ljós að bæði prófin gáfu jákvæða niðurstöðu og var hann fluttur í einangrun í Ólympíuþorpinu þar sem hann verður næstu daga. Patrick Renner, þjálfari Sturlu Snæs, er jafnframt kominn í sóttkví en þetta smit hefur ekki áhrif á aðra í íslenska hópnum að svo stöddu.

Í tilkynningunni segir einnig að ekki sé vitað hvar eða hvenær Sturla Snær smitaðist enda hafi allir þátttakendur gætt vel að sóttvörnum undanfarna daga og vikur og að grímuskylda sé í gildi á Vetrarólympíuleikunum, hvort heldur í Ólympíuþorpunum eða á keppnisstöðum.

„Það á eftir að koma í ljós hversu fljótt Sturla Snær jafnar sig af veikindunum en hann er skráður til keppni í tveimur greinum á leikunum. Keppni í stórsvigi fer fram sunnudaginn 13. febrúar og keppni í svigi miðvikudaginn 16. febrúar.

Reglur leikanna gefa möguleika á því að keppendur geti tekið þátt um leið og þeir geta framvísað nokkrum neikvæðum PCR-prófum í röð og þar sem enn er töluvert í að þessar keppnisgreinar fari fram má telja líklegt að Sturla Snær nái að keppa á leikunum. Þó verður að meta framvindu næstu daga,“ sagði auk þess í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert