Keppendur frá Slóveníu voru í sérflokki þegar keppt var til verðlauna í skíðastökki kvenna á Vetrarólympíuleikunum í Peking í dag.
Hin slóvenska Ursa Bogataj reyndist hlutskörpust og tryggði sér ólympíugull þegar hún fékk alls 239 stig.
Þjóðverjinn Katharina Althaus var næststigahæst með 236,8 stig og krækti í silfur.
Í þriðja sæti var Slóveninn Nika Kriznar með 232 stig og nældi hún fyrir vikið í bronsverðlaun.
Fleiri Slóvenar gerðu sig gildandi í skíðastökkinu þar sem Ema Klinec hafnaði í fimmta sæti og Spela Rogelj endaði í níunda sæti.