Fagnaði hádramatískum sigri í brekkufimi

Zoi Sadowski-Synnott sveif hæst allra í Peking í nótt.
Zoi Sadowski-Synnott sveif hæst allra í Peking í nótt. AFP

Hin tvítuga Zoi Sadowski-Synnott frá Nýja-Sjálandi fagnaði dramatískum sigri í brekkufimi á snjóbretti í kvennaflokki á Vetrarólympíuleikunum í Peking í nótt.

Keppendur fengu þrjár tilraunir til þess að sýna snilli sína en Sadowski-Synnott var í öðru sæti fyrir síðustu ferðina sína og var hún jafnframt síðust í röðinni af tólf keppendum.

Hún fékk 92,88 stig fyrir lokaferðina en Julia Marino frá Bandaríkjunum hafnaði í öðru sæti með 87,68 stig. Tess Coady frá Ástralíu varð þriðja með 84,15 stig.

Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem Nýja-Sjáland vinnur til gullverðlauna á Vetrarólympíuleikum og fjórðu verðlaun þjóðarinnar frá upphafi en Sadowski-Synnott vann til bronsverðlauna í brekkufimi í PyeongChang í Suður-Kóreu árið 2018.

Jamie Anderson frá Bandaríkjunum sem hafði fagnaði sigri í greininni á síðustu tveimur Vetrarólympíuleikum, í Suður-Kóreu 2018 og í Sochi í Rússland 2014, náði sér ekki á strik í nótt og hafnaði í 9. sæti með 60,78 stig.

Zoi Sadowski-Synnott.
Zoi Sadowski-Synnott. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert