Svipt ólympíugulli frá 2012

Natalya Antyukh fagnar ólympíugullinu í Lundúnum árið 2012, sem hún …
Natalya Antyukh fagnar ólympíugullinu í Lundúnum árið 2012, sem hún hefur nú verið svipt. AFP

Rússneski hlauparinn Natalya Antyukh hefur verið svipt gullverðlaununum sem hún hlaut fyrir sigur í 400 metra grindahlaupi kvenna á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012.

Athletics Integrity Unit, AIU, tók þessa ákvörðun með hliðsjón af gögnum frá rannsóknarstofu í lyfjaprófunum. Þar með er búið að svipta alla rússneska verðlaunahafa á leikunum í Lundúnum verðlaunum sínum vegna lyfjamisferlis.

Áður höfðu Mariya Savinova, sem vann 800 metra hindrunarhlaup kvenna, og Yuliya Zaripova, sem vann 3.000 metra hindrunarhlaup kvenna, verið sviptar gullverðlaunum sínum á leikunum og sömu sögu er að segja af Ivan Ukhov, sem vann hástökk karla, og Tatyönu Lysenko, sem vann sleggjukast kvenna.

Antyukh er þegar í keppnisbanni til fjögurra ára eftir að hafa verið ein af fjölda rússnesks íþróttafólks sem var nefnd í stærðarinnar rannsókn Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar á svindli Rússa í íþróttum.

Hin bandaríska Lashinda Demus, sem hafnaði í öðru sæti í 400 metra grindahlaupinu fyrir rúmum áratug, mun nú fá gullverðlaunin í stað Antyukh.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka