„Erfitt og langt ferðalag“

Guðlaug Edda Hannesdóttir.
Guðlaug Edda Hannesdóttir. Árni Sæberg

Þríþraut­ar­kon­an Guðlaug Edda Hann­es­dótt­ir kepp­ir á Ólymp­íu­leik­un­um í Par­ís í sum­ar en Alþjóða þríþraut­ar­sam­bandið staðfesti þátt­töku henn­ar þar í gær. Hún verður fyrst Íslend­inga til að keppa í þríþraut á Ólymp­íu­leik­um.

Edda tryggði sér þáttökuréttinn með góðum árangri á þremur mótum á einum mánuði í Nepal, Filippseyjum og síðast nú um helgina í Japan.

„Þetta var mjög erfitt og langt ferðalag - en ég var undirbúin fyrir það sérstaklega andlega. Upprunalega ætlaði ég að keppa í Kína líka en það var aðeins of mikið þannig við létum þessar þrjár duga því ég var í svo góðri stöðu fyrir ÓL eftir Nepal og Filippseyjar“.

Hvernig gekk að halda út og ná árangri í þremur krefjandi keppnum á stuttum tíma?

„Ég reyni að gera mitt besta að hvíla mig og næra vel til að halda líkamanum góðum. Ég tók FaceTime með Árna, sjúkraþjalfaranum mínum, þegar mér fannst líkaminn vera að segja stopp og hann hjálpaði mér í gegnum síma. Ég er með frábært teymi í kringum mig og er þakklát fyrir það“.

Guðlaug Edda Hannesdóttir.
Guðlaug Edda Hannesdóttir. Ljósmynd/FRÍ

Edda glímdi við erfið meiðsli á mjöðm á síðasta ári sem gerir afrek hennar enn stærra.

„Já, árið í fyrra var mjög erfitt fyrir mig bæði líkamlega og andlega og ég var eiginlega ákveðin í að hætta þarna í fyrrasumar þó mig hafi ekki langað það. Mér leið bara mjög illa og var að glíma við erfið meiðsli sem mér fannst ég ekki sjá neinn enda á“.

„Ég nánast æfði ekkert frá mars til október í fyrra sem er mjög langur tími. Það hefur tekið langan tíma að liða vel aftur og byggja upp æfingamagn þannig það hafði mjög mikil áhrif á mig. En það góða er að þar sem ég hef ekki keppt lengi er ég mjög fersk, mjög hungruð og næ að grafa djúpt andlega sem vegur upp á móti því sem mig vantar líkamlega“.

Edda er þakklát fólkinu sem stóð með henni í gegnum allt ferlið og segir stuðning þeirra vera ómetanlegan. Hún fékk hvatningu frá afreksstjóra ÍSÍ, Vésteini Hafsteinssyni, sem skipti hana miklu máli.

Ljósmynd/Þríþrautarsamband Íslands

„Vésteinn Hafsteinsson hitti mig á fundi í fyrrasumar og hvatti mig til að gefa þessu einn annan sens. Það hjálpaði mér ótrúlega mikið að vita að hann hefði trú á mér, því á þeim tíma fannst mér ég vera utangarðs útaf meiðslunum“.

„Svo þegar ég var ákveðin að halda áfram þá vissi eg að ég vildi gera ýmislegt öðruvísi því ég var hrædd um að ég gæti ekki komið til baka en þurfti að losna við þann ótta til þess að öðlast trú á sjálfa mig á nýjan leik“.

Ólympíuleikarnir hefjast þann 24. júlí í París og Þríþraut kvenna fer fram 31. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert