Jöfnuðu á 16. mínútu í uppbótartíma

Soufiane Rahimi fagnar eftir að hafa komið Marokkó í 2:0 …
Soufiane Rahimi fagnar eftir að hafa komið Marokkó í 2:0 gegn Argentínu. AFP/Arnaud Finiste

Marokkó sigraði Argentínu, 2:1, í fyrsta leik knattspyrnukeppninnar á Ólympíuleikunum í dag.

Á leikunum eru lið 23 ára og yngri auk þess sem þrír eldri leikmenn eru heimilaðir. Argentína tefldi fram bæði Julian Álvarez og Nicolás Otamendi í sínu liði sem eldri mönnum en Achraf Hakimi, leikmaður París SG, er fyrirliði hjá Marokkó.

Hakimi lagði einmitt upp fyrsta mark leiksins fyrir Soufiane Rahimi, sem síðan skoraði úr vítaspyrnu, 2:0, áður en Giuliano Simeone minnkaði muninn fyrir Argentínu.

Leikið var í St. Étienne og spilaður var 15 mínútna uppbótartími vegna meiðsla og annarra tafa. Þegar mínúta var komin fram yfir hann náði Cristian Medina að jafna fyrir Argentínu en markið var síðar dæmt af vegna rangstöðu. Þá hafði leikurinn tafist í tvo klukkutíma þar sem rýma þurfti leikvanginn vegna óláta áhorfenda frá Marokkó.

Írak og Úkraína eru með þessum liðum í B-riðli og mætast síðar í dag en tvö komast áfram í átta liða úrslit.

Spánn vann nauman sigur á Úsbekistan, 2:1, í C-riðli í París en þar eru einnig Egyptaland og Dóminíska lýðveldið.

Marc Pubill og Sergio Gómez skoruðu fyrir Spánverja en Eldor Shomurodov gerði mark Úsbeka.

Uppfært:
Leiknum var ekki lokið þegar hann virtist hafa verið flautaður af en hann var stöðvaður vegna óláta marokkóskra áhorfenda sem grýttu vatnsflöskum inn á völlinn.

Markið sem virtist vera jöfnunarmark var að lokum dæmt af vegna rangstöðu en sú ákvörðun var tilkynnt 90 mínútum eftir að leikurinn var stöðvaður.

Leikvangurinn var tæmdur og fyrst tveimur tímum eftir að leiknum átti að ljúka var hann flautaður á að nýju til að spila allra síðustu mínútur uppbótartímans. Marokkó vann leikinn 2:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert