Charlotte Dujardin, þrefaldur Ólympíumeistari í hestaíþróttum, hefur verið dæmd í tímabundið keppnisbann fyrir dýraníð eftir að myndband af Dujardin að slá hest í fæturna ítrekað með písk komst í fréttir.
Dujardin keppir í dressage, einskonar dansfimi á hesti, en hún stefndi á fjórðu gullverðlaun sín á leikunum í París. Engin bresk kona hefur unnið til fleiri en þrennra gullverðlauna á Ólympíuleikum.
Good Morning Britain, morgunþáttur í sjónvarpsstöðinni ITV, birti myndband af Dujardin láta höggin dynja á hesti en myndbandið er nokkurra ára gamalt. Barsmíðarnar áttu sér stað í hesthúsi Dujardin.
Dujardin hefur viðurkennt að myndbandið sé af henni og dró sig sjálfviljug úr keppni í öllum mótum á meðan rannsókn málsins fer fram. Alþjóðahestaíþróttasambandið (FEI) staðfestir bannið í dag.
„Það sem átti sér stað var rangt og lýsir ekki hvernig ég þjálfa hestana mína eða kenni nemendum mínum, engu að síður á ég mér engar málsbætur. Ég skammast mín innilega og ég hefði átt að sýna betra fordæmi á þessu augnabliki,“ segir Dujardin í yfirlýsingu.
Rannsókn málsins er í höndum alþjóðahestaíþróttasambandsins.