Sendur heim áður en leikarnir byrja?

Sundkeppni Ólympíuleikanna hefst á laugardagsmorguninn.
Sundkeppni Ólympíuleikanna hefst á laugardagsmorguninn. AFP/Olivier Chassignole

Ástralski sundþjálfarinn Michael Palfrey gæti verið sendur heim frá Ólympíuleikunum í París áður en þeir verða formlega settir annað kvöld.

Ástralska sundsambandið og yfirþjálfarinn Rohan Taylor eru afar óhress með ummæli Palfreys í viðtali við suðurkóreska blaðamenn.

Þar sagðist Palfrey, sem er í þjálfarateymi ástralska sundliðsins, vona að kóreski sundmaðurinn Kim Woo-min myndi vinna Ástralana Sam Short og Elijah Winnington í 400 metra skriðsundinu í París.

Palfrey þjálfar Kim en einnig marga ástralska sundmenn aðra en þá tvo sem hann nefndi til sögunnar.

„Ég er afar vonsvikinn, gríðarlega vonsvikinn. Það er ekki ásættanlegt að einn af þjálfurum okkar tali svona um annan íþróttamann og setji hann fram fyrir okkar íþróttamenn," sagði Rohan Taylor, yfirþjálfari ástralska liðsins, við Sydneh Morning Herald, og kvaðst þurfa að taka ákvörðun fljótlega um hvort Plalfrey verði áfram hluti af þjálfarateyminu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert