Meiri kröfur og væntingar á síðustu Ólympíuleikunum

Anton Sveinn McKee keppir í fyrramálið.
Anton Sveinn McKee keppir í fyrramálið. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

„Þetta er orðið spennandi, kominn skemmtilegur fiðringur og pressa. Þetta er að fara að skella á,“ sagði sundmaðurinn Anton Sveinn McKee í samtali við Morgunblaðið.

Anton keppir í 100 og 200 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í París og ríður fyrstur á vaðið af íslensku keppendunum fimm er hann stingur sér til sunds í undanrásum í 100 metrunum á laugardag klukkan 9. Fari hann áfram í undanúrslit syndir hann aftur um kvöldið. Úrslitasundið er síðan á sunnudagskvöldið.

Anton hefur æft stíft undanfarnar vikur en andlegur undirbúningur er mikilvægur á síðustu dögunum fyrir keppni á sjálfum Ólympíuleikunum.

„Það er lítið sem maður getur gert til þess að stýra spennunni, lítið annað en að taka þátt í þessu ferðalagi. Maður breytir ekki forminu núna heldur snýst þetta um að vera með hausinn á réttum stað,“ sagði Anton.

Vill búa til góðar minningar

Hann er á leiðinni á sínu fjórðu Ólympíuleika þrátt fyrir að vera enn aðeins þrítugur. Hann var 18 ára gamall þegar hann keppti í London árið 2012 og var síðan aftur á meðal keppenda í Ríó árið 2016 og Tókýó fyrir þremur árum.

Leikarnir í ár verða síðustu Ólympíuleikar Antons og hann ætlar að nýta reynsluna og njóta þess að keppa á allra stærsta sviðinu í hinsta skipti.

„Það eru öðruvísi aðstæður í hvert skipti á þessum leikum. Ég er með meiri kröfur og væntingar til sjálfs mín núna. Þetta eru líka síðustu Ólympíuleikarnir og maður vill búa til eins góðar minningar og hægt er. Maður vill horfa til baka með jákvæðni á þessa leika þegar maður er búinn. Maður er orðinn þaulvanur og veit hvað maður er að fara út í,“ sagði hann.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir keppir einnig á leikunum, rétt eins og í Tókýó. Þau Anton og Snæfríður hafa farið í ófáar keppnisferðir saman og mynda sterkt teymi.

„Það hjálpar að hafa liðsfélaga þótt þetta sé einstaklingsíþrótt. Við lyftum hvort öðru upp, það er mjög mikilvægt og mun betra en að vera einn í þessu. Það gerir vegferðina miklu skemmtilegri líka.“

Uppáhaldsaugnablik Antons á Ólympíuleikum til þessa eiga sér stað rétt áður en hann stingur sér til sunds og keppir við bestu sundmenn heims á móti sem alla dreymir um að vinna.

„Að labba út á bakkann og standa á bak við pallinn eru mín uppáhaldsaugnablik. Maður upplifir aldrei eins mikla núvitund, rétt áður en maður keppir á stærsta sviði lífsins. Það er ólýsanleg upplifun að gera það. Það kemst ekkert annað í kollinn en að keyra á þetta og ná því besta sem er í boði þann dag. Það er upplifun sem maður fær ekki oft í lífinu,“ sagði hann.

Lengdi ferilinn fyrir París

Anton hefur keppt á fjölmörgum stórmótum og náð góðum árangri. Hann náði í fyrstu verðlaunin á stórmóti er hann hlaut silfur í 200 metra bringusundi á Evrópumótinu í Rúmeníu í lok síðasta árs. Ekkert jafnast hins vegar á við að keppa á Ólympíuleikum, en Anton hefur lengt ferilinn til þess að keppa í París í ár.

„Ólympíuleikarnir eru ástæðan fyrir því að maður lagði af stað í vegferðina. Hin mótin eru líka stór og maður setur pressu á sig þar og finnur fyrir væntingum líka. En þetta mót er ástæðan fyrir því að maður hefur haldið áfram og lengt ferilinn um þrjú ár frá Tókýó. Vatnið er jafn blautt, aðstæður eru eins og þetta eru sömu keppinautar. Maður þarf að gera sömu hluti á Ólympíuleikum og öðrum mótum en áherslan hjá mér hefur alltaf verið að ná langt á Ólympíuleikunum,“ útskýrði Anton.

Viðtalið í heild sinni er í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert