Send heim fyrir njósnir

Bev Priestman hefur verið vikið frá störfum
Bev Priestman hefur verið vikið frá störfum Ljósmynd/CIBC

Kanadíska knattspyrnusambandið hefur vikið Beverley Priestman, þjálfara kvennalandsliðs þjóðarinnar, frá störfum fram yfir Ólympíuleikana fyrir sinn þátt í njósnum kanadíska þjálfarateymisins á æfingu Nýja-Sjálands á dögunum. Aðstoðarmaður hennar hefur verið dæmdur í skilorðsbundið fangelsi.

Priestman hafði boðist til að stíga til hliðar í leiknum gegn Nýja-Sjálandi sem fram fór í gær og lauk með 2:1 sigri Kanada en knattspyrnusambandið tók þá ákvörðun að senda hana heim og láta aðstoðarþjálfara hennar, Andy Spence, stýra liðinu á leikunum.

Leikgreinandinn Joseph Lombardi var í gær dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að fljúga dróna á almenningssvæði án leyfis en hann notaði dróna til að taka upp æfingu ný-sjálenska liðsins.

Í yfirlýsingu kanadíska knattspyrnusambandsins er tekið fram að sjálfstæð rannsókn á málinu muni fara fram og Priestman komi ekki nálægt liðinu fyrr en þeirri rannsókn er lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert