Framkvæmdastjóri kanadíska ólympíusambandsins segir að háttalag þjálfarateymis kvennaliðs Kanada í knattspyrnu geti varpað skugga á sigur liðsins á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2021.
Kanadíska knattspyrnusambandið sendi þjálfara liðsins, Bev Priestman, heim frá Ólympíuleikunum í París eftir að upp komst um njósnir þjálfarateymis hennar með drónum um fyrstu mótherjana á leikunum, Nýsjálendinga.
Sambandið taldi allar líkur á að hún hefði verið með í ráðum, eða í það minnsta vitað af háttalagi samstarfsfólks síns.
Þá staðfesti framkvæmstjóri knattspyrnusambands Kanada, Kevin Blume, að hann hefði fengið upplýsingar um drónanotkun karlalandsliðs þjóðarinnar í kringum leiki liðsins í Ameríkubikarnum í sumar, þar sem það komst í undanúrslit.
„Allt bendir til þess að þessar upplýsingar geti varpað stórum skugga á gullverðlaunin okkar frá því í Tókýó. Mér líður illa við þá tilhugsun," sagði David Shoemaker, framkvæmdastjóri ólympíusambands Kanada.
Lið Kanada, undir stjórn aðstoðarþjálfarans, vann leikinn gegn Nýja-Sjálandi, 2:1, þar sem Eyjakonan Cloé Eyja Lacasse skoraði fyrra mark kanadíska liðsins.