Zico rændur í París

Zico, til vinstri, með silfurskóinn á HM 1982 ásamt Paolo …
Zico, til vinstri, með silfurskóinn á HM 1982 ásamt Paolo Rossi og Karl-Heinz Rummenigge. AFP

Zico, einn af fremstu knattspyrnumönnum í sögu Brasilíu, var rændur í gær þegar hann kom til Parísar til að fylgjast með sínum mönnum á Ólympíuleikunum.

Zico var boðið sérstaklega af brasilíska ólympíuliðinu en tösku með verðmætum var stolið úr bifreið hans.

Dagblaðið Parisien segir að hann hafi verið með reiðufé, úr og skartgripi að verðmæti 500 þúsund evrur, um 75 milljónir króna, en heimildamenn AFP segja að það séu talsverðar ýkjur.

Zico er 71 árs gamall, lék með Brasilíu á þremur heimsmeistaramótum og skoraði 48 mörk í 71 landsleik á árunum 1976 til 1986. Hann var í lykilhlutverki í frábæru liði Brasilíu á HM 1982 sem þótti sigurstranglegasta liðið en féll síðan óvænt út fyrir Ítölum.

Hann þjálfaði lengi eftir ferilinn og starfaði síðast hjá Kashima Antlers í Japan, sem tæknilegur ráðgjafi.

Zico varð fyrir barðinu á þjófum í París.
Zico varð fyrir barðinu á þjófum í París. AFP/Michele Llimina
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert