Anton: Ekkert sem jafnast á við þetta

Anton Sveinn á fleygiferð í dag.
Anton Sveinn á fleygiferð í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Anton Sveinn McKee hafnaði í 25. sæti af 36 kepp­end­um í 100 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í París í dag. Anton kom fyrstur í mark í 2. riðli en það dugði ekki til að fara áfram í undanúrslit. Þrátt fyrir það var Anton sáttur er hann ræddi við mbl.is strax eftir sundið.

„Þetta var frábær byrjun. Auðvitað langar manni alltaf að komast áfram og bæta sig en ég held þetta sé einn hraðasti tími sem ég hef synt um morgunn. Miðað við það er ég sáttur. Ferlið gekk vel og upphitunin og rútínan fyrir líka. Þá verð ég orðinn vanur fyrir 200 á þriðjudaginn.

Sáttastur af öllu er ég við útfærsluna. Ég var yfirvegaður í sundinu. Vandamálið hjá mér hefur verið að flýta mér of mikið. Núna var þetta allt undir stjórn og ég náði að setja sundið mikið betur upp,“ sagði Anton.

Anton einbeittur fyrir sundið.
Anton einbeittur fyrir sundið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Anton keppir í sinni sterkustu grein, 200 metra bringusundi, á þriðjudag. Þar á hann mun meiri möguleika á að fara í undanúrslit og ef allt gengur upp í úrslit.

„Maður fór í 100 til að hita upp. Ég var ekki í bestu riðlunum. Það sem skiptir mestu máli er að ég var með góðan endasprett og á góðum hraða. Tíminn á leiðinni til baka er sá hraðasti hjá mér síðan ég setti Íslandsmetið fyrr á árinu. Nú fínpússa ég það sem þarf að laga og er ótrúlega spenntur fyrir þriðjudeginum.“

Stemningin í sundhöllinni í París var mögnuð og mögnuð stúka troðfull. „Það er ekkert sem jafnast á við þetta. Að labba út í keppnishöllina og finna þessa rafmögnuðu stemningu. Þetta er ótrúleg tilfinning,“ sagði Anton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert