Anton vann riðilinn

Anton Sveinn fyrir sundið í dag.
Anton Sveinn fyrir sundið í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Anton Sveinn McKee kom fyrstur í mark í 2. riðli í undanrásum í 100 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í París í morgun en hann var fyrsti íslenski keppandinn af fimm til að stíga á stokk. 

Hann var með besta tímann í fyrstu tveimur riðlunum en komst ekki í undanúrslit, þar sem 16 efstu sundmennirnir keppa síðar í kvöld.

Anton synti á 1:00,62 mínútum en Íslandsmet hans frá því í apríl er 1:00,21 mínúta sem hann setti á Íslandsmótinu. Íslenski sundmaðurinn varð í 25. sæti af 36 keppendum en hann var einmitt með 25. besta tímann af þeim fyrir leikana.

Anton Sveinn á fleygiferð í París í dag.
Anton Sveinn á fleygiferð í París í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Anton keppir næst í undanrásum í 200 metra bringusundi á þriðjudaginn en það er hans sterkasta grein. Náði Anton t.a.m. í silfur í greininni á EM í fyrra. Hefur Anton burði til að fara alla leið í úrslit. 

Hollendingurinn Caspar Corbeau fór með besta tímann í undanúrslit en hann synti á 59,04 sekúndum. Næstur var heimsmethafinn breski Adam Peaty á 59,18 sekúndum. Ilya Shymanovich frá Hvíta-Rússlandi kom næstur á 59,25 sekúndum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert