Erum eins og lítil fjölskylda

Eyleifur Jóhannesson fyrir framan ólympíuþorpið í París.
Eyleifur Jóhannesson fyrir framan ólympíuþorpið í París. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það hefur verið nóg að gera hjá Eyleifi Jóhannessyni landsliðsþjálfara í sundi en hann hefur staðið í ströngu með ólympíuförunum Antoni Sveini McKee og Snæfríði Sól Jórunnardóttir undanfarnar vikur í aðdraganda Ólympíuleikanna.

„Við erum meira og minna búin að vera á ferð og flugi síðustu tíu vikurnar. Við fórum í æfingabúðir fyrir EM, æfingabúðir í Tyrklandi, vorum heima í viku og svo voru það æfingabúðir á Spáni og svo komum við hingað. Þau eru búin að undirbúa sig eins vel og þau geta til að geta staðið sig fyrir land og þjóð,“ sagði Eyleifur við mbl.is.

„Við erum eins og lítil fjölskylda. Við búum í íbúð 204 hérna og við köllum okkur fjölskyldu. Það er fjölskyldufundur þegar við hittumst. Þetta er mjög náið samstarf,“ bætti hann við.

Anton Sveinn keppti í 100 metra bringusundi í dag og hafnaði í 25. sæti af 36 kepp­end­um. Hann á enn eftir 200 metra bringusund, sem er hans sterkasta keppni.

„Allir sem koma á Ólympíuleika dreymir um stóra hluti. Anton er með 13. besta tímann í 200 metra bringusundi og góða reynslu á EM og HM þar sem hann hefur farið í úrslit. Það hjálpar, en þetta er hörð keppni,“ sagði hann.

Þá á Snæfríður Sól Jórunnardóttir fína möguleika á að komast í undanúrslit í 200 metra skriðsundi, sem er hennar sterkasta grein. „Möguleikar Snæfríðar eru líka góðir. Hún er venjulega góð á þessum stóru mótum. Okkur dreymir um að sundfólkið okkar syndi að kvöldi til á Ólympíuleikum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert