Ótrúlegur sigur lærisveina Dags

Dagur ræðir við sitt lið í dag.
Dagur ræðir við sitt lið í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í króatíska karlalandsliðinu í handbolta fögnuðu sigri gegn Japan, 30:29, í 1. umferð A-riðils Ólympíuleikanna í París. Dagur þjálfaði Japan frá 2017 og þar til hann tók við króatíska liðinu í febrúar.

Mikið jafnræði var með liðunum framan af leik og var staðan óvænt 9:9 þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður. Hiraki Motoki kom Japan svo yfir, 10:9, í kjölfarið.

Japanir héldu áfram að spila vel og komst þremur mörkum yfir, 16:13, þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik. Króötum gekk bölvanlega að skora undir lok fyrri hálfleiks og var staðan í leikhléi 18:13, Japan í vil.

Kosuke Yasuhira fór á kostum í hálfleiknum og skoraði sjö mörk fyrir Japan. Enginn í liði Króata skoraði meira en tvö mörk í afar slökum fyrri hálfleik.

Dagur súr á hliðarlínunni í dag.
Dagur súr á hliðarlínunni í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Króatíu gekk illa að minnka muninn framan af í seinni hálfleik og var hann fimm mörk, 21:15, þegar sjö mínútur voru liðnar.

Þá tóku Króatar rækilega við sér, eftir leikhlé hjá Degi, og minnkuðu muninn í eitt mark, 23:22, en þannig var staðan þegar 13 mínútur voru eftir. Staðan var svo jöfn, 24:24, þegar Lovro Mihic skoraði tíu mínútum fyrir leikslok.

Liðin skiptust á að skora eftir það og var staðan 29:29 þegar rúm mínúta var eftir. Japan fékk tækifæri til að skora, það tókst ekki og Króatar tryggðu sér sigurinn hinum megin þegar örfáar sekúndur voru eftir. 

Kosuke Yasuhira skoraði tíu mörk fyrir Japan og Naoki Fujisaka fimm. Mario Sostaric skoraði sex fyrir Króatíu og Lovro Mihić fjögur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert