Verður allt öðruvísi en í Tókýó

Snæfríður Sól Jórunnardóttir er tilbúin í slaginn í París.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir er tilbúin í slaginn í París. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir hefur keppni á sínum öðrum Ólympíuleikum er hún stingur sér til sunds í undanrásum í 200 metra skriðsundi í París á morgun, sunnudag. Undanúrslitin fara fram síðar um daginn og úrslitin á mánudag. Hún keppir svo í undanrásum 100 metra skriðsunds á þriðjudag.

Morgunblaðið ræddi við Snæfríði á þriðjudag, tæpum sólarhring áður en hún hélt til Parísar. Þá var hún stödd á Spáni þar sem hún var í tíu daga æfingabúðum fyrir stóru stundina.

„Þetta er búið að vera gaman. Það hefur verið góð stemning hérna og gott veður. Það er líka mikil spenna að fara af stað í París og koma sér fyrir í þorpinu. Það styttist heldur betur í þetta og maður er byrjaður að finna meiri fiðring með hverjum deginum sem líður. Ég er mjög spennt fyrir öllu saman og spennan verður bara meiri þegar maður lendir í París. Þá fer maður að átta sig betur á öllu,“ sagði Snæfríður.

Náði 22. sæti í Tókýó

Hún var einnig á meðal keppenda í Tókýó fyrir þremur árum og bætti þar eigið Íslandsmet í 200 metra skriðsundi og hafnaði í 22. sæti af 29 keppendum. Hún bætti svo eigin árangur í 100 metra skriðsundi og hafnaði í 34. sæti af 50 keppendum.

Snæfríður ætlar að reyna hvað hún getur að undirbúa sig á sama hátt og fyrir önnur stórmót, en hún er orðin reynslumikil á slíkum þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára.

„Auðvitað er þetta allt risastórt, flott og spennandi og það er ekki hægt að horfa framhjá því. Maður notar fyrsta daginn í að hugsa hvað þetta er magnað allt saman, það má alveg, og svo fer maður í sína rútínu. Í lok dags er þetta bara mót og eins og öll önnur mót sem ég hef verið að keppa á,“ sagði hún.

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert