Biles hélt áfram þrátt fyrir meiðsli

Simone Biles þurfti aðhlynningu eftir upphitun á gólfi.
Simone Biles þurfti aðhlynningu eftir upphitun á gólfi. AFP/Loic Venence

Fimleikakonan Simone Biles og liðsfélagar hennar í bandaríska landsliðinu áttu frábæran dag í öðrum hluta undankeppninnar á Ólympíuleikunum í París.

Heimsmeistarinn, Biles, er í fyrsta sæti og Ólympíumeistarinn Suni Lee er í öðru eins og staðan er núna og bandaríska liðið er í forystu en það eru þrír hlutar eftir.

Biles byrjaði á slá sem er eitt af hennar bestu áhöldum og fékk 14.733 í einkunn.

Næst fór hún á gólf en í upphitun meiddist hún á ökkla í stökki sem er nefnt eftir henni, Biles I, sem er tvöfalt heljarstökk með beinum líkama og hálfri skrúfu. Hún gat haldið áfram og gerði glæsilegar gólfæfingar og fékk 14.600 fyrir.

Simone Biles fékk 14.600 á gólfi í dag.
Simone Biles fékk 14.600 á gólfi í dag. AFP/Gabriel Bouys

Næst fór hún á stökk og var haltrandi um í upphitun en þegar að kom að því að keppa sást ekki á henni að hún væri meidd og hún framkvæmdi eitt erfiðasta stökk í heimi, Yurchenko tvöfalt pike, sem er arabaflikk upp á hestinn og tvöfalt heljarstökk með beinum fótum á leiðinni niður, og fékk 15.800 í einkunn. Ólíklegt að einhver geri betur en það.

Hún endaði á tvíslá sem er ekki hennar sterkasta áhald en hún fékk 14.433 fyrir og er með bestu samanlögðu einkunnina hingað til, 59.566.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert