„Það er mjög gaman að vera komin hingað til Parísar. Það er stórt að vera hérna og þetta er draumur að rætast,“ sagði sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir í samtali við mbl.is við ólympíuþorpið í París en hún er mætt á sína aðra Ólympíuleika.
Stemningin á síðustu leikum í Tókýó var öðruvísi þar sem covid hafði mikil áhrif á gang mála. Andrúmsloftið er léttara í þorpinu í ár.
„Þetta er aðeins öðruvísi. Það eru ekki allir labbandi um með grímur. Fólk er slakara núna en annars er þetta svipað,“ sagði Snæfríður en rúmin í ólympíuþorpinu hafa vakið athygli þar sem þau eru úr pappa.
„Rúmin eru alveg eins og í fyrra mér finnst þetta allt í lagi fyrir mig. Ég get samt ímyndað mér að þetta sé vandamál fyrir stóra menn,“ sagði Snæfríður létt.
Aðstæður í sundhöllinni í París eru eins og best verður á kosið. Laugin er glæsileg og stúkan mögnuð. „Þetta er geggjað og örugglega flottasta laug sem ég hef nokkurn tímann séð. Þetta er allt rosalega stórt og flott og þvílíkur lúxus.“
Fjölskylda Snæfríðar fylgir henni til Parísar og verður hún studd áfram úr stúkunni.
„Mamma, amma og litli bróðir koma og svo einn vinur minn. Það verður gaman að reyna að finna þau í stúkunni eftir sundið. Kannski verða þau með íslenska fánann,“ sagði hún.
Snæfríður og Anton Sveinn McKee voru einnig saman í Tókýó fyrir þremur árum og hafa tekið þátt í ófáum mótum saman.
„Við erum búin að fara í margar ferðir saman og við reynum að hafa gaman. Við viljum ekki að þetta sé of alvarlegt hjá okkur, heldur líka gera skemmtilega hluti inn á milli,“ sagði Snæfríður.