Snæfríður: Ég á heima hérna líka

Snæfríður Sól kát í lauginni í París.
Snæfríður Sól kát í lauginni í París. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég á kannski að vera svekkt en mér leið vel í kvöld, mikið betur en í morgun,“ sagði sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir í samtali við mbl.is í kvöld eftir að hún hafnaði í 15. sæti 200 metra skriðsundi á Ólympíuleikunum í París.

Hún var í fyrsta skipti að synda í undanúrslitum Ólympíuleika og var sátt við sitt, þrátt fyrir að hún hafi verið nokkuð frá Íslandsmeti sínu.

„Ég náði að hafa gaman og njóta og ég er mjög sátt. Ég einbeitti mér að mínu og minni braut og mér fannst ég synda vel en við verðum að sjá hvað þjálfarinn segir. Þetta var góð reynsla og að sjá alla áhorfendurna þegar ég kom í bakkann var geggjað.“

Kristinn Magnússon

Á meðal keppenda í sundi Snæfríðar var ástralski heimsmethafinn Ariarne Titmus. Snæfríður vann sér inn sæti í undanúrslitum, rétt eins og Titmus og aðrar fremstu sundkonur heims.

„Þetta getur farið í hausinn á mér. Ég vissi af þeim þarna og auðvitað eru þær aðeins á undan mér akkúrat núna. En ég á braut hérna og á heima hérna líka. Ég vissi að þær myndu synda hraðar en ég og það þýðir ekki fyrir mig að horfa á þær.“

Snæfríður var ekki sérlega sátt í morgun er hún tryggði sér sæti í undanúrslitum, en var sáttari með sundið í kvöld. „Ég var aðeins svekkt í morgun því mig langaði að vera á betri tíma en þegar maður meltir þetta, 15. sæti á Ólympíuleikunum, það er geggjað.“

Hún á enn eftir að synda 100 metra skriðsund á leikunum, en aðalgreinin er 200 metrarnir.

„Ég verð að ná mér niður í kvöld og svo einbeiti ég mér að 100 metrunum. Það er ekki aðalgreinin mín en það er gaman að fá að synda annað sund. Ég syndi eins hratt og ég get,“ sagði Snæfríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert