Snæfríður svekkt þrátt fyrir að fara áfram

Snæfríður Sól eftir sundið í dag.
Snæfríður Sól eftir sundið í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var mögnuð upplifun,“ sagði Snæfríður Sól Jórunnardóttir í samtali við mbl.is eftir að hún tryggði sér sæti í undanúrslitum 200 metra skriðsunds á Ólympíuleikunum í París í dag.

Þrátt fyrir að vera komin áfram í undanúrslit var Snæfríður ekki sérlega sátt við sundið, en hún synti á 1:58,32 mínútu, um hálfri sekúndu frá Íslandsmetinu sínu.

„Ég fór kannski að hugsa aðeins of mikið í sundinu. Ég reyndi að tæma hugann en þetta eru Ólympíuleikar og þá koma hugsanir. Ég var svolítið svekkt með tímann en það er geggjað að fá séns á að synda aftur í kvöld.

Mér leið vel fyrstu 100 en eftir það fór ég að hugsa of mikið um að ná í bakkann. Við sjáum hvort við getum ekki gert betur í kvöld,“ sagði hún

mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölskylda Snæfríðar er mætt til Parísar að styðja hana áfram og sá hún íslenska fánann í stúkunni.

„Ég sá hann í stúkunni. Það var mjög gaman og ekki oft sem það gerist. Það er ekki oft sem svona hlutir gerast.“

Keppnishöllin í París er stórkostleg, setið í hverju sæti og var stemningin algjörlega mögnuð. „Þetta er stórt. Ég reyndi að einbeita mér ekki of mikið að umhverfinu þegar ég stökk í laugina heldur taka það frekar inn þegar ég fer út úr lauginni og njóta þess þá.“

Snæfríður var í næstsíðasta riðlinum og þurfti að bíða eftir að síðasti kláraði sitt sund til að vita hvort hún færi áfram.

Kristinn Magnússon

„Mér var aðallega illt í löppunum og að labba frá lauginni. Ég var ekki að pæla of mikið. Ég gerði bara mitt besta og þetta var mitt besta í þessu sundi. Ég er ánægð með að vera komin áfram.“

Undanúrslitin fara fram í kvöld um 20 að íslenskum tíma, en hvað gerir Snæfríður þangað til?

„Fyrst fer ég og syndi mig niður og fæ mjólkursýruna úr líkamanum. Svo tala ég við þjálfara og liðið í kringum mig. Ég reyni að gera mig tilbúna fyrir kvöldið,“ sagði Snæfríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert