Stjarna Króatíu hrósar Degi í hástert

Luka Cindric með boltann í gær.
Luka Cindric með boltann í gær. AFP/Aris Messinis

Króatinn Luka Cindric var skiljanlega kátur er hann ræddi við mbl.is eftir 30:29-sigur á Japan í fyrsta leik liðanna í A-riðli í handboltakeppni Ólympíuleikanna í París í gær.

Japan náði óvænt góðu forskoti rétt fyrir hálfleik og var um tíma sex mörkum yfir í seinni hálfleik. Króatía sneri leiknum sér í vil í lokin.

„Japan er með mjög gott lið. Við vorum stressaðir í byrjun og þeir nýttu sér það vel. Við náðum svo betri tökum á þessu í seinni hálfleik. Við sýndum mikinn styrk og neituðum að gefast upp.

Svona eru íþróttir. Þeir fengu sitt tækifæri en nýttu það ekki. Við gerðum svo vel í að nýta okkar færi en við viljum spila betur í næsta leik,“ sagði Cindric.

Leikstjórnandinn er einn besti leikmaður Króata og hefur leikið með stórliðum á borð við Barcelona, Vardar, Kielce og Veszprém. Hann kann afar vel við að spila fyrir Dag Sigurðsson sem tók við sem þjálfari Króata í byrjun árs.

„Hann er virkilega góður þjálfari sem vill spila skemmtilegan handbolta. Hann er alltaf rólegur og það hjálpar því við erum stundum svolítið klikkaðir. Hann stýrir liðinu mjög vel og veit alltaf hvað á að segja þegar það er mikið undir,“ sagði Cindric.

En er Dagur byrjaður að tala króatísku? „Aðeins, ég veit hann er að læra og það á bara eftir að hjálpa liðinu meira,“ sagði Luka Cindric.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka